Erlent

Thorning-Schmidt segir ástandið í Danmörku betra en árið 2011

Atli Ísleifsson skrifar
Helle Thorning-Schmidt tók við embætti forsætisráðherra Danmerkur árið 2011.
Helle Thorning-Schmidt tók við embætti forsætisráðherra Danmerkur árið 2011. Vísir/AFP
Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, boðaði í morgun til þingkosninga þann 18. júní.

Thorning-Schmidt greindi frá þessu á fréttamannafundi í morgun. Tilkynningin var ekki óvænt en síðustu daga hefur mikið verið rætt um að til stæði að boða til kosninga á allra næstu dögum.

Forsætisráðherrann greindi frá því í gær að til stæði að verja 39 milljörðum danskra króna, eða 775 milljörðum íslenskra króna, til ýmissa verkefna og litu margir á þetta upphafið að kosningabaráttunni.

Betra en 2011

„Ástandið í Danmörku er betra en 2011,“ sagði Thorning-Schmidt á fréttamannafundinum í morgun, en ríkisstjórn hennar tók við völdum þá. Sagðist hún nú vilja endurnýjað umboð frá kjósendum.

Thorning-Schmidt sagði það stefna endurreisn landsins í hættu ef stjórnarandstöðuflokkarnir í landinu tækju við völdum í landinu „Flestir Danir eru líklegast sammála mér að við búum í besta landi í heimi.“ 

Svaraði engum spurningum

Forsætisráðherrann svaraði engum spurningum eftir tæplega tíu mínútna langa ræðu sína í morgun.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa mælst með minna fylgi en stjórnarandstaðan í skoðanakönnunum síðustu mánuði, en Jafnaðarmannaflokkur Thorning-Schmidt hefur þó verið að bæta við sig fylgi að undanförnu.

Í Danmörku eru ekki fastir kjördagar, heldur verður forsætisráðherrann að boða til kosninga innan ákveðins tímabils.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×