Innlent

Mótmælandi handtekinn á Austurvelli

Bjarki Ármannsson skrifar
Þrír eða fjórir lögregluþjónar yfirbuguðu manninn.
Þrír eða fjórir lögregluþjónar yfirbuguðu manninn. Vísir
Lögregla handtók fyrir stuttu karlmann á miðjum aldri við mótmælin á Austurvelli sem nú standa yfir. Að sögn blaðamanns Vísis sem staddur er á mótmælunum hafði maðurinn stungið sér inn fyrir varnarvegg lögreglu og reyndi að komast inn í Alþingishúsið áður en lögregla yfirbugaði hann.

Líkt og sjá má á myndum og myndskeiði með fréttinni, tóku nokkrir lögreglumenn þátt í því að yfirbuga manninn. Hann var síðan færður úr augsýn mótmælenda og svo virðist sem aukið hafi verið við mannskap lögreglu við þinghúsið í kjölfar atviksins. Hátt í þrjátíu lögreglumenn gæta nú hússins en aðeins um fimm til tíu gættu þess áður.

Sjá einnig: 99 ástæður til byltingar

Maðurinn reyndi fyrst að komast inn um gömlu dyr Alþingishússins en tókst það ekki. Hann hljóp nokkuð lengi undan lögregluþjónum en nam svo staðar með hendurnar út í loft til að reyna að halda lögreglumönnum frá. Þeir hlupu þó beint á hann og ýttu í jörðina.

Að sögn blaðamanns Vísis á staðnum virtist handtaka mannsins ekki vekja mikla reiði meðal mótmælenda á Austurvelli. Örfáum eggjum og kínverjum hafi þó verið grýtt í þinghúsið eftir handtökuna en ekki endilega vegna hennar.

Uppfært:

Maðurinn sem var handtekinn, Björgvin Þór Hólm, framkvæmdastjóri Tölvuvirkni, kveðst hafa tekið meðvitaða ákvörðun um borgaralega óhlýðni af sinni hálfu í dag. Það hafi verið gert til þess að vekja athygli á störfum ríkisstjórnarinnar „sem séu óboðleg“. Honum þykir þó miður að hafa truflað störf lögreglu og segist hafa játað brot sitt skýlaust. Ekki sé hægt að setja út á störf lögreglu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×