Skoðun

Opið tækifæri fyrir ríkið að laga launakerfi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna

Erna Guðmundsdóttir skrifar
Kröfur BHM í kjaraviðræðum við ríki ganga í meginatriðum út á að menntun verði metin til launa annars vegar og hins vegar að sett verði aukið fjármagn í stofnanasamningakerfið sem félagsmenn BHM sem starfa hjá ríkinu búa við.

BHM vill stuðla að því að háskólamenntaðir starfsmenn ríkisins búi við svipuð starfskjör og þekkist á hinum almenna vinnumarkaði svo ríkið geti til frambúðar staðist samkeppnina við aðra hluta vinnumarkaðarins. Það hefur verið markmiðið og tekið fram í inngangsorðum undanfarinna kjarasamninga en því miður hefur árangurinn ekki verið eftir því.

Kynslóðaskipti eru að verða í mannafla hjá stofnunum ríkisins. Fjöldi starfsmanna er að komast á starfslokaaldur og erfitt kann að reynast að fylla í skörðin þar sem starfsmannavelta er mikil í yngri hópunum. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á launamun milli opinbers og almenns vinnumarkaðar sem mögulegan orsakavald í starfsmannaveltu. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis segir orðrétt: „Ríkið þarf að gera sér grein fyrir hvers konar atvinnurekandi það vill vera og hvernig það geti laðað til sín ungt og hæft starfsfólk og haldið því.“

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 er tekið undir ábendingar Ríkisendurskoðunar. Þar er m.a lögð áhersla á að ríkið þurfi að búa yfir framúrskarandi mannauði, að starfsmönnum verði búin góð starfsskilyrði og viðunandi launakjör, án þess þó að ríkið verði leiðandi varðandi laun.

Hagsmunir stjórnvalda og BHM fara að megindráttum saman og því ætti að vera hægt að ljúka samningum. Ríkið hefur hins vegar dregið samningaviðræður á langinn á þeim forsendum að ríkið eigi ekki að vera leiðandi í launasetningu. Á meðan eru alvarlegar verkfallsaðgerðir í gangi.

Forsendur ríkisins virðast vera meitlaðar í stein þrátt fyrir að öllum sé ljóst að launakerfið sem háskólamenntaðir starfsmenn ríkisins búa við virki ekki sem skyldi. Til þess að stefna ríkisins um að vera ekki leiðandi varðandi laun á vinnumarkaði gangi upp þarf fyrst að laga það launakerfi sem ríkisstarfsmenn búa við í dag. Út á það ganga kröfur BHM. Nú er tækifærið fyrir ríkið að laga launakerfi háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins til framtíðar svo það haldi í og laði til sín hæft starfsfólk. 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×