Innlent

Enn ein mótmælin gegn ríkisstjórninni á Austurvelli

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá mótmælum vegna ESB-málsins í mars síðastliðnum.
Frá mótmælum vegna ESB-málsins í mars síðastliðnum.
Um 4.400 manns hafa, þegar þetta er skrifað, boðað komu sína á Facebook-viðburðinn „Bylting! Uppreisn! ENDILEGA deilið og bjóðið eins og þið viljið!“ þar sem fólk er hvatt til þess að fjölmenna á Austurvöll næsta þriðjudag, að því er virðist til að mótmæla sitjandi ríkisstjórn.

„Almenningur sér sig nú knúinn til að koma núverandi ríkisstjórn frá störfum,“ segir í lýsingu viðburðarins á Facebook. „Hún er að valda varanlegum, óafturkræfum skaða fyrir þjóðina. Við erum reið.“

Mótmælendur eru hvattir til þess að koma með lykla með sér á Austurvöll, bæði til þess að búa til hávaða og til að koma þeim skilaboðum á framfæri að umboð ríkisstjórnarinnar sé runnið út.

Fjölmenn mótmæli gegn ríkisstjórninni fóru nokkuð reglulega fram í vetur. Á fimmta þúsund manns komu saman í nóvember til að mótmæla „dólgslegri og hrokafullri“ framkomu ríkisstjórnarinnar í hinum ýmsu málum, í kjölfar fundarboðs tónlistarmannsins Svavars Knúts. Fleiri mótmæli fylgdu í kjölfarið, meðal annars vegna hluts Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra í lekamálinu svokallaða.

Þá var efnt til mótmæla í mars síðastliðnum vegna bréfs Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra til ráðherraráðs Evrópusambandsins og yfirlýsinga hans í kjölfarið um að Ísland hefði verið tekið af lista umsóknarríkja sambandsins.

Boðað er til mótmælanna klukkan fimm næstkomandi þriðjudag, 26. maí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×