Lífið

María um flutninginn: „Mikið stress í gangi“

Bjarki Ármannsson skrifar
„Ég er náttúrulega ekki sátt með að hafa ekki farið áfram,“ segir María Ólafsdóttir, fulltrúi okkar Íslendinga í Eurovision-söngvakeppninni í ár. María, sem söng lagið Unbroken, var ekki meðal þeirra tíu flytjenda sem komust áfram úr hennar riðli í gærkvöldi.

„Ég gerði mitt besta á þessum þremur mínútum,“ sagði María þegar Davíð Lúther hjá Silent náði af henni tali í dag. „Auðvitað var mikið stress í gangi, sem kemur alltaf niður á flutningnum. En ég reyndi samt að gera mitt besta.“

Sjá einnig: Stuðningskveðjum rignir yfir Maríu Ólafs

María segir flutning lagsins í beinni í gærkvöldi hafa verið næstbesta rennslið á laginu sem hópurinn náði, á eftir æfingunni fyrr um daginn. Hún segist hafa verið mjög meðvituð um það á meðan hún flutti lagið hve margir væru að horfa.

„Ég reyndi að einbeita mér bara að myndavélunum en það er samt svo mikill hávaði í áhorfendunum að maður stuðast smá við það,“ segir hún. „En þetta var samt ótrúlega gaman og ég myndi taka þátt aftur ef ég fengi tækifæri til þess.“

Sjá einnig: Eurovision-teymið ekki á leið heim strax

„Við ætlum bara að nýta daginn, skoða okkur um og fara á keppnina á morgun,“ segir María, aðspurð um hvað taki nú við hjá Eurovision-hópnum þar til haldið er heim. Hún segist ætla að halda með ástralska laginu í lokakeppninni annað kvöld.

„Ég fíla líka sænska lagið og svo dönsum við voða mikið með Ísraelanum þegar hann syngur,“ segir hún og hlær. „Þó svo það sé kannski ekki besti flutningurinn. Samt svona peppandi lag.“

María þakkar landsmönnum kærlega fyrir stuðninginn í viðtalinu, sem sjá má í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.