Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá flugfélaginu WOW sem barst Vísi rétt í þessu.
„Rík áhersla er lögð á trúnað gagnvart farþegum WOW air og skýrt ákvæði þess eðlis í öllum ráðningasamningum starfsmanna félagsins.“
Sjá einnig: WOW fundar vegna flugfreyju í flugi Ásmundar Einars
Ónafngreind flugfreyja sagði Ásmund hafa verið áberandi drukkinn
Tvennum sögum fer af því hvort Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, hafi verið undir áhrifum áfengis eður ei þegar hann kastaði upp í flugi Wow Air til Washington nú á dögunum. Fundað var vegna ummæla flugfreyju WOW en hún tjáði sig um ástand Ásmundar við Fréttanetið.
,,Við sáum strax að hann var töluvert drukkinn þegar hann kom um borð og við fylgdumst vel með honum. Það er náttúrulega erfitt að díla við svona hluti þegar um er að ræða virðulegan þingmann,” segir flugfreyjan við Fréttanetið. Hún vilji ekki koma fram undir nafni enda ríki þagnarskylda í starfi þeirra hjá WOW air.
Sjálfur sagði þingmaðurinn í gær að hann hafi verið með magakveisu en bæði DV, sem fyrst greindi frá málinu, og Nútíminn segjast hafa það frá öðrum að hann hafi verið áberandi ölvaður í fluginu.
Sjá einnig: Var Ási að fá sér? Flugfarþegi segir þingmann hafa ælt á sig vegna ofdrykkju

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði hins vegar í samtali við Vísi Ásmund ekki eiga við nokkurn áfengisvanda að stríða. „Þetta er meira en pest. Hann er fárveikur, er kominn í veikindaleyfi og er á sterkum lyfjum,“ segir Þórunn.
Hún sagðist jafnframt vera hneyksluð á umfjöllunin sem hófst í kjölfar atburðarins. „Ótrúlegt hvernig fólk leyfir sér að taka einstakling fyrir og af lífi, dreifa óhróðri og hlusta jafnvel ekki á þá sem eru að segja rétt frá,“ sagði Þórunn.