Innlent

Í þyrlum upp Esjuna til að hlýða á sjóðheitan Ásgeir Trausta

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Mikill fjöldi gesta lagði leið sína á fjallstopp Esjunnar í gærkvöldi til að sækja tónleika tónlistarmannsins Ásgeirs Trausta. Mjög margir gestir voru ferjaðir í þyrlu upp fjallið. 

Eins og sést á þessum myndum var útsýnið sem fréttamaður og tökumaður fengu úr þyrlunni á leið upp mikilfenglegt.

Þetta er í annað sinn sem fjarskiptafyrirtækið NOVA heldur tónleika á fjallstoppi Esjunnar en á síðasta ári mætti stór hópur til að hlusta á DJ Margeirs. Að þessu sinni mætti Ásgeir Trausti ásamt hljómsveit.

Þyrluþjónustan Helo tók að sér að ferja gesti upp fjallið. Margir kusu hins vegar að fara á tveimur jafnfljótum og brenna þar með nokkrum kaloríum áður áður en notið var fagurra tóna Ásgeirs Trausta í fjallshlíðinni en hann er eiginlega á barmi þess að verða alþjóðleg stjarna.

„Þetta er töluvert betur lukkað en í fyrra. Ásgeir Trausti er svakalega heitur akkúrat núna og það sýnir sig á fjöldanum hér á bak við okkur,“ segir Guðmundur Arnar Guðmundsson markaðsstjóri NOVA.

Guðmundur Arnar segir að NOVA hafi fengið áskoranir um halda tónleikana aftur og segist vel geta trúað að þetta verði fastur liður hér eftir. „Við fengum mikla hvatningu eftir tónleikana á síðasta ári. Þeir lukkuðust mjög vel og þess vegna skelltum við í þessa og ég held, eins og við sjáum á fjöldanum, að þetta sé komið til að vera.“

Sjón er sögu ríkari í meðfylgjandi myndskeiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×