Viðskipti innlent

Gríðarleg innspýting fyrir Norðausturland

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kristján Þór Magnússon, bæjarstjóri Norðurþings.
Kristján Þór Magnússon, bæjarstjóri Norðurþings. Mynd/Stöð 2.
Ákvörðun um kísilver á Bakka er gríðarleg innspýting fyrir norðausturhluta landsins, segir bæjarstjóri Norðurþings. Iðnaðaruppbygging muni treysta stoðir samfélagsins. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Tilkynnt var í gær um ákvörðun PCC um að reisa 40 milljarða króna kísilver við Húsavík en áður hafði Landsvirkjun gert samninga um að reisa Þeistareykjavirkjun og Landsnet um að flytja raforkuna. Kristján Þór Magnússon, bæjarstjóri Norðurþings, segir þetta ánægjuleg tíðindi fyrir norðausturhorn landsins og vonast til að Húsavík og nágrenni verði eitt af vaxtarsvæðum landsins.

„Hér er náttúrlega að koma gríðarleg innspýting með þessari fjárfestingu og því sem er að gerast uppi á Þeistareykjum. Það bara gefur augaleið að það verður auðveldara að nýta tækifærin sem í því felast að byggja upp þessa innviði sem nú fara að spretta upp,“ segir Kristján Þór bæjarstjóri.

Fulltrúar PCC, verktaka og verkfræðistofa skoðuðu iðnaðarlóðina á Bakka í desember ásamt fulltrúum Norðurþings.640.is/Hafþór Hreiðarsson
Hann segir að töluvert verði umleikis næstu tvö árin við uppbygginguna og um 400 manns í vinnu næsta sumar, auk þeirra sem verða á Þeistareykjum. Ráðgert er að kísilverið hefji rekstur síðla árs 2017 og skapast þá 120 framtíðarstörf auk afleiddra starfa. Bæjarstjórinn minnir þó á að 66 störf hafi tapast á Húsavík þegar fiskvinnslu Vísis var lokað.

„Við höfum ekki farið varhluta af rýrnum tekna vegna sjávarútvegs hérna í þessu sveitarfélagi. Þannig að það er auðvitað gríðarlega ánægjulegt fyrir okkur að vera að treysta stoðirnar í atvinnulífinu með þessum hætti, að fá hérna inn iðnaðaruppbyggingu til þess að hjálpa okkur við að byggja upp enn betra samfélag,“ segir bæjarstjórinn.


Tengdar fréttir

Framkvæmdir hafnar á iðnaðarlóðinni á Bakka

Fyrstu framkvæmdir á iðnaðarlóðinni á Bakka við Húsavík eru hafnar, á ábyrgð þýska félagsins PCC, sem stefnir að lokaákvörðun um kísilver í kringum næstu mánaðamót.

Mesta uppbygging í sögu Norðurlands

Mesta atvinnuuppbygging í sögu Norðurlands var innsigluð í dag þegar tilkynnt var að fyrirvörum í samningum um kísilver á Bakka hefði verið aflétt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×