Viðskipti innlent

Jón Ólafsson tapar lögbannsmáli í Hæstarétti

Bjarki Ármannsson skrifar
Fyrirtæki Jóns fékk lögbann á notkun vörumerkisins árið 2013 en það hefur verið fellt úr gildi.
Fyrirtæki Jóns fékk lögbann á notkun vörumerkisins árið 2013 en það hefur verið fellt úr gildi. Vísir/Arnþór/Anton
Hæstiréttur sýknaði í dag fyrirtækið Iceland Glacier Wonders af kröfum vatnsátöppunarfyrirtækisins  Iceland Water Holdings, sem fór fram á lögbann á notkun vörumerkisins „Iceland Glacier.“ Iceland Water Holdings, fyrirtæki Jóns Ólafssonar athafnamanns, fékk lögbann á vörumerkið hjá Sýslumanni Reykjavíkur árið 2013 en það var fellt úr gildi í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra.

Dómur í öðru máli, sem einnig var kveðinn upp í Hæstarétti í dag, féll þó Iceland Water Holdings í vil. Þar fór fyrirtækið fram á að Iceland Glacier Wonders yrði bannað að nota vörumerkið „Iceland Glacier“ í firmaheiti sínu og að því yrði gert að afmá vörumerkið úr því fyrir 20. júní.

„Iceland Glacier“ er skráð vörumerki fyrirtækis Jóns en Iceland Glacier Wonders, sem stofnað var af Hollendingnum Otto Spork, selur vatnsflöskur með heitinu „Sno Iceland Glacier Water.“ Í dómi Hæstaréttar var ekki fallist á að villst yrði á merkjunum tveimur.

Dómurinn taldi að sjónlíking merkjanna væri verulega frábrugðin og að hljóðlíking væri ekki fyrir hendi. Var dómur Héraðsdóms Reykjavíkur þannig staðfestur og var Iceland Water Holdings dæmt til að greiða Iceland Glacier Wonders 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×