Innlent

Nafn stúlkunnar sem lést

Samúel Karl Ólason skrifar
Ingibjörg Melkorka Ásgeirsdóttir.
Ingibjörg Melkorka Ásgeirsdóttir.
Stúlkan sem lést í kjölfar þess að hafa neytt eiturefnisins E-pillu aðfararnótt síðastliðins sunnudags hét Ingibjörg Melkorka Ásgeirsdóttir. Hún var búsett á Akranesi. Ingibjörg Melkorka var fædd 8. mars 1998 og var því nýlega orðin 17 ára. Ingibjörg lætur eftir sig foreldra, fjórar systur og einn bróður. Hún var nemandi í Menntaskóla Borgarfjarðar síðastliðið skólaár en stundaði áður nám í Brekkubæjarskóla á Akranesi og í Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit. Bænastund verður í Akraneskirkju á morgun, föstudaginn 5. júní klukkan 17:30.

Þetta kemur fram í tilkynningu fjölskyldunnar á vef Skessuhorns.

Ingibjörg Melkorka tók inn eina og hálfa E-töflu. Eftir það sofnaði hún og vaknaði ekki aftur. Hún var flutt á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut þar sem hún var úrskurðuð látin aðfararnótt þriðjudagsins 2. júní. Aðstandendur Ingibjargar Melkorku vilja koma því á framfæri að þetta var í fyrsta og eina skipti sem vitað er að hún hafi neytt þessara eiturefna sem E-pillur eru. Eitt skipti getur því verið nóg til að hafa þessar hörmulegu afleiðingar. „Von okkar er að þessum skilaboðum verði komið út í samfélagið sem víðast, öðrum til aðvörunar um þá dauðans alvöru sem neysla vímuefna getur haft,“ segir í yfirlýsingu frá aðstandendum.

„Ingibjörg Melkorka hafði látið í ljós þá ósk, að ef til þess kæmi, yrði hún líffæragjafi. Við því var orðið og er það okkur nokkur huggun á erfiðum stundum að líf hennar geti orðið öðrum til aðstoðar.

Við fjölskyldan viljum þakka samhug og vinarþel sem okkur hefur verið sýnt á erfiðum stundum undanfarna daga. Jafnframt viljum við láta þess getið að við kjósum að tjá okkur ekki nánar við fjölmiðla að sinni og óskum eftir að það verði virt og því sýndur skilningur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×