Af því tilefni kíktu þær Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir í settið í Íslandi í dag ásamt Evert og ræddu um leikana og möguleika þeirra á heimsleikunum. Sterar og notkun þeirra bar einnig á góma.
Handknattleiksmaðurinn Jóhann Birgir Ingvarsson var í síðasta mánuði dæmdur í sex mánaða keppnisbann eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Hann sagðist hafa fengið sopa af drykk hjá félaga sínum sem „var að taka anavar eins og 90 prósent af crossfitturum fyrir Evrópuleikana.“ Ummælin féllu í grýttan jarðveg hjá þeim sem stunda crossfit og voru rædd í kvöld.
„Það kom í ljós þegar Crossfit sambandið á Íslandi sameinaðist um að svara þessum unga manni að það voru engin rök á bak við það sem hann sagði. Ég tel að hann hafi verið að fela skömm sína hjá einhverjum öðrum,“ segir Evert.
„Ég vil vita hvað ég get gert, hver mikið ég get bætt mig. Ég vil ýta mér að mínum ystu mörkum,“ segir Katrín Tanja. „Um leið og þú tekur eitthvað muntu aldrei vita hve mikið þú getur gert. Með því að skella skuldinni á crossfit er að einhverju leiti verið að ræna okkur þessu og það er mjög ósanngjarnt því það liggur mikill tími og vinna að baki þessu.“
Innslag Íslands í dag má sjá hér að neðan.