Innlent

Myglusveppurinn sendi konu á leið í þríþraut í rúmið

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Guðbjörg fór í Reykjavíkurmaraþon en stefndi á þríþraut.
Guðbjörg fór í Reykjavíkurmaraþon en stefndi á þríþraut. Vísir/Guðbjörg
„Sæl öllsömul, ég heiti Guðbjörg og ég er mygluð.” Þannig kynnti Guðbjörg Matthíasdóttir sig á kynningarfundi GRÓ, nýstofnaðra samtaka um tengsl heilsu við myglu og raka. Fundurinn var haldinn í gær í hringsal Barnaspítala Hringsins rétt eins og Vísir hefur greint frá.

Guðbjörg er þolandi myglusvepps og vakti mikla lukku þeirra tæplega hundrað gesta sem sóttu fundinn með upplýsandi og gamansömu erindi sínu þó alvarlegar afleiðingar fylgi því að búa við myglusvepp en hún bjó við heilsuspillandi aðstæður í um sjö ár. Hún telur eigin fordóma aðalorsök þess hve langan tíma það tók hana að viðurkenna möguleika á myglusvepp.



Sjá einnig:Tugir á kynningarfundi um myglusvepp: „Ómetanlegt að finna stuðning"

Saga Guðbjargar fer hér á eftir og er áhugaverð fyrir ýmsar sakir, ekki síst vegna þess hve langan tíma það getur tekið að uppgötva og svo viðurkenna myglusveppinn og hvernig hann getur sent manneskju í rúmið sem er líkamlega klár til að takast á við þríþraut.



Hæg eitrun sem ágerðist

„Ef einhver hefur verið í afneitun um myglumál þá er það ég. Ég var meira að segja lögfræðingur húseigendafélagsins og þurfti að kljást við málefni fólks sem bjó við myglusvepp. Og hafði mikla samkennd með þessu fólki,” sagði Guðbjörg.

Ýmsar áhugaverðar upplýsingar komu fram á fundinum, fjölmiðlar hafa fjallað myglusvepp á síðastliðnum árum.Vísir/Íris Guðjónsdóttir
„Ég varð fyrir eitrun, hægri eitrun sem síðan ágerðist.” Eins og fyrr segir bjó Guðbjörg við myglusvepp í sjö ár. „Það endaði með því að ég gekk út með náttfötin mín og tannbursta í poka.”

Guðbjörg ákvað um fertugt að finna sér ástríðu. Hún var komin með leið á sjálfri sér, var óánægð og með bakmeiðsli. Hún setti sér markmið sem var í upphafi að lagast á bakmeiðslum og leiðanum. „Ég fór á skriðsundnámskeið og svo leiddi eitt af öðru. Mér fer að ganga betur og betur. Ég fer upp úr sundlauginni og fer að hjóla. Af hjólinu fer ég í strigaskó og byrja að hlaupa. Á endanum kynntist ég íþrótt sem heitir þríþraut.”

Uppgjöf þrátt fyrir ástríðuna

„En svo eftir því sem ég fer að leggja meira og meira í mína heilsu og mína drauma þá fer ég að taka eftir því að ég er samt alltaf að veikjast. Það er ekkert samærmi á milli þess hvað ég er að leggja á mig og heilsu minnar.

Ég er alltaf að veikjast og veikjast og veikindin ágerast og ágerast. Ég fæ það sem kallast áreynsluastmi, verð lungnaveik, fæ lungnasýkingar og fleira. Þetta endar þannig að ég gefst upp.”

Einkenni sem fylgja myglusveppi eru fjölmörg en koma ekki fram hjá öllum og í mismiklum mæli.Vísir/Skjáskot af vefsíðu Hús og heilsu
Guðbjörg segist stanslaust hafa staðið í því að leggjast í rúmið og þurfa svo að rífa sig upp og koma sér aftur af stað. Engir læknar gátu aðstoðað Guðbjörgu og hún skildi ekkert í veikindum sínum.

„Það gerist ekkert og lagast ekkert. Það endar með að ég hætti öllu. Ég gerist ég svo örvæntingarfull að ég skrifa inn á bland,” segir Guðbjörg og hlær.

Bréf berst frá bjargvættinum að austan

Á síðunni lýsir hún einkennum sínum og líðan og fær í kjölfarið tölvupóst. Pósturinn er frá konu sem er búsett „fyrir austan” og telur einkenni Guðbjargar eiga mikið skylt við sína upplifun af því að búa við myglusvepp. „Hún er mjög skelegg og fer yfir öll mín einkenni.” Þrátt fyrir þetta opnast augu Guðbjargar ekki á þessu stigi.

Guðbjörg var komin á hjólið og ætlaði að taka þátt í þríþraut en sveppurinn greip inn í.Vísir/Guðbjörg
Guðbjörg gefst þó ekki endanlega upp og fer aftur af stað í líkamsræktina nokkru síðar. Hún fer hægt af stað, velur eina líkamsrækt og er alveg ótrúlega ánægð með sig. 

„Ég er „bara” veik fjórum til fimm sinnum á ári,” gantast Guðbjörg en það ekki er eðlilegt að búa við svo tíð veikindi. 

„Ég veikist og veikist áfram þangað til að ég get eiginlega ekki hreyft mig”

„Ég er svo til læknis og segi við hana að það sé ekkert að mér og að þess vegna sé ég komin. Ég er ekki tilbúin til að kaupa það að ég sé bara óheppin. Að ég sé alltaf veik en hugsi samt vel um heilsuna og fái engin svör við af hverju það er. Hún var mjög hjálpleg.” 

Guðbjörg fór í alls kyns rannsóknir, brjósta- og skjaldkirtislkrabbamein var útilokað til dæmis, en þrátt fyrir þær fannst engin lausn.

Guðbjörgu tókst að snerta á viðfangsefninu með húmor og gleði og vakti því mikla lukku viðstaddra.Vísir/Íris
Uppgefin og vonlaus fer Guðbjörg í tölvuna og rekst á gamlan tölvupóst, póstinn frá konunni að austan. Hún fer að taka til heima hjá sér með hugann við bréfið, opnar fataskápinn og tekur eftir lykt sem hún fattar að er ekki endilega eðlileg í heilbrigðu húsi.

„Það kemur í ljós að fataskápurinn minn er allur myglaður eftir gamalt vatnstjón. Þegar ég fæ Hús og heilsu á staðinn kemur svo í ljós að það er mygla um allt húsið,” sagði Guðbjörg. Myglusveppur er þrautseig lífvera sem getur dreift úr sér á ótrúlegustu staði ef honum tekst að skjóta föstum rótum. Staði þar sem rakastig er ekki yfir hættumörkum.

„Ég veikist og veikist áfram þangað til að ég get eiginlega ekki hreyft mig.” Þá grípur vinkona Guðbjargar inn í og skipar henni að flytja til sín, sú hafði sjálf reynslu af myglusvepp.

Upplýsti lækninn sjálf um orsök veikindanna

Guðbjörg skildi allt eftir, mestallar sínar eigur og híbýli sín en mælt er með því að slíkt sé gert þegar upp kemst um alvarlegan myglusvepp.

„Það var síðan ég sem sagði lækninum hvað var að mér. Það voru fyrst og fremst Hús og heilsa sem fundu út úr þessu og svo konan fyrir austan.”

Guðbjörg er nú á batavegi þrátt fyrir að batinn gangi hægt. Hún hefur verið í heilbrigðu húsnæði í sex mánuði en tók síðast bakslag fyrir þremur vikum. „Ástæðan fyrir því að þetta tekur svona langan tíma er maður sjálfur, fordómarnir liggja hjá manni sjálfum. Ég var alveg á því að það væri mun auðveldara að greinast með alvarlegan sjúkdóm, það væri auðveldara að ræða það út á við.”

Hlaupaskórnir hafa verið dregnir fram og Guðbjörg er aðeins að þreifa á þeim nú þegar hún býr ekki lengur við aðstæður sem eru skaðlegar heilsu hennar.

„Það er allt mjög bjart framundan.” 


Tengdar fréttir

Spítalinn og plágurnar

Læknar komnir í verkfall. Ekki er það gott. Verra gæti það verið, ef engir væru læknarnir, sem gætu farið í verkfall. Í þá átt hefur lengi stefnt. Fyrri ríkisstjórn lagði línurnar og sú nýja stefnir hraðbyri sömu leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×