Enski boltinn

De Gea gefur ekkert upp um framtíðina: Við sjáum til hvað gerist

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Er De Gea búinn að þakka fyrir sig á Old Trafford?
Er De Gea búinn að þakka fyrir sig á Old Trafford? vísir/getty
David De Gea, markvörður Manchester United, vill ekkert ræða framtíð sína á Englandi sama hvað spænskir miðlar reyna að pína út úr honum.

Markvörðurinn magnaði er sagður vilja komast til Real Madrid í sumar þar sem tími er kominn á markvarðaskipti, en De Gea á eitt ár eftir af samningnum sínum við Manchester United.

„Við sjáum til hvað gerist með mína framtíð. Núna er ég bara í fríi,“ segir hann í stuttu samtali við spænska íþróttablaðið AS.

Breskir miðlar hafa greint frá því að Real Madrid sé tilbúið að láta Keylor Navas, varamarkvörð liðsins og markvörð landsliðs Kostaríka, fara til United sem hluta af kaupverðinu.

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, ræddi framtíð De Gea á lokadegi ensku úrvalsdeildarinnar, en þá hvatti hann Spánverjann unga til að gera upp hug sinn.

„Ég get ekki sagt til um hvað gerist með De Gea. Hann verður að segja eitthvað sjálfur,“ sagði Louis van Gaal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×