Innlent

Huginn VE fann makríl djúpt suður af Eyjum

Svavar Hávarðsson skrifar
Guðmundur Huginn Guðmundsson
Guðmundur Huginn Guðmundsson Fréttablaðið/Óskar
„Við erum búnir að fá ágætt og erum í vinnslu. Þetta er eins og alltaf - þarf bara aðeins að leita að honum,“ segir Guðmundur Huginn Guðmundsson, skipstjóri á Huginn VE 55, sem fór til leitar á makríl að morgni fimmtudags.

Guðmundur segir að það sé ekki mikið að sjá, makríllinn sé dreifður á töluverðu svæði djúpt suður af Vestmannaeyjum og reitist upp í flottroll. Hann segir að miðað við árstíma líti makríllinn ágætlega út.

„Við erum búnir að taka hérna þrjú stutt holl og erum búnir að fá um 200 tonn,“ segir Guðmundur en makríllinn fannst eftir skamma leit, og slær á allar áhyggjur um að með kólnandi sjó væri óvíst hvort makríll gengi inn í lögsögu Íslands.

„Ég ætla að fara hérna víða, en við erum með nóg í vinnslu eins og er. Við keyrðum beint þangað sem við höfðum á tilfinningunni að makríllinn væri og það reyndist rétt,“ segir Guðmundur sem hafði spurn af því að nokkur skip væru að týnast á miðin til að leita fyrir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×