Innlent

Saka sjávarútvegsráðherra um klækjapólitík og forkastanleg vinnubrögð

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra Vísir/VALGARÐUR
Stjórn Landssambands smábátaeigenda vandar Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegsráðherra ekki kveðjurnar í yfirlýsingu sem sambandið sendi frá sér í kvöld.  Þar sakar stjórn landsambandsins ráðherrann um klækjapólitík, segja vinnubrögð hans forkastanleg og lýsa yfir fullu vantrausti á embættisfærslu ráðherra.

Tilefnið eru tillögur ráðherrans um breytingar á makrílveiðum landans en í Á síðustu vertíð stöðvaði ráðherra makrílveiðar smábáta í byrjun september. Samanlagður afli þeirra jafngilti þá 4,9% af heildarafla. „Ljóst var að með því að heimila veiðar til loka september eins og Landssamband smábátaeigenda hafði óskað eftir hefði veiði orðið mun hærra hlutfall heildaraflans,“ segir stjórninni í tilkynningunni.

„Það var í raun kaldhæðnislegt að sama magn og smábátar veiddu, um 7.500 tonn, var skilið eftir af útgefnum heildarkvóta. Aflaverðmæti á milli 650 og 700 milljónir og útflutningsverðmæti um tvöföld sú upphæð um 1,4 milljarður. Þar við bætist hundruðir starfa sem töpuðust á ætluðum veiðitíma“

Sjávarútvegsráðherra lagði fram frumvarp um stjórn veiða á Norður-Atlantshafsmakríl þar sem byggt er á kvótasetningu allra útgerðarflokka fyrir nokkrum vikum. Þar er gert ráð fyrir að hlutur smábáta verði festur við 5%, sóknarmark aflagt og í stað þess úthlutað kvóta á hvern bát samkvæmt veiðireynslu.

„LS mótmælti strax tillögum ráðherra, enda fyrirsjáanlegt að kvótasetning mundi aðeins gagnast örfáum aðilum en helftin af flotanum mundi standa eftir með ónýtta fjárfestingu,“ segir stjórnin og bætir við að þá væri þróun veiðanna í fullum gangi og líklegt að hæfilegt magn sem veiða ætti við ströndina væri það sama og hjá Norðmönnum, 16 prósent heildarkvótans.

„Allflestir landsmenn vita hvaða viðtökur frumvarpið hefur fengið. Alls hafa 51 þúsund þeirra mótmælt því. Í dag hefur ráðherra ákveðið með setningu reglugerðar að hafa þessi mótmæli að engu. Að beita svokallaði klækjapólitík þar sem ekki einungis skoðanir tuga þúsunda landsmanna eru hunsaðar heldur bætist þar við sjálft Alþingi," segir stjórnin.

Gjörningurinn er einn fjölmargra sem ráðherra hefur framkvæmt á þeim tveggja ára tíma sem hann hefur verið við völd og gefur tilefni til þess að segja hingað og ekki lengra. Landssamband smábátaeigenda lýsir hér með yfir fullu vantrausti á embættisfærsluráðherra og krefst þess að hún verði dregin til baka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×