Viðstaddir héldu á lofti rauðum mótmælaspjöldum og hrópuðu ítrekað „vanhæf ríkisstjórn“ þegar hátíðardagskrá hófst. Mátti heyra köllinn greinilega í útsendingu RÚV frá Austurvelli.
Sigmundur kallaði Ísland í ræðu sinni „fyrirmynd í samfélagi þjóðanna“ og sagði lífslíkur, atvinnuleysi og kynjajafnréttindi betur á veg komið hér en í öðrum löndum. Í heildarsamhenginu hljóti Íslendingar að geta verið sammála um að Ísland sé „líklega bara mjög gott land,“ þó það geti orðið enn betra. Þá vék ráðherra einnig talinu að hundrað ára afmæli kosningarrétts kvenna á Íslandi og íslenska þjóðfánans, sem hann sagði að Íslendingar ættu að temja sér að nota meira.
Yfir ræðunni allri heyrðist trommusláttur og hróp mótmælenda. Púað var á Sigmund, sérstaklega hátt þegar hann sagði að þjóðin ætti áfram að vinna að meira jafnrétti og meira lýðræði. Þó heyrðist einnig lófatak þegar ræðunni lauk en áfram heyrist duglega í mótmælendum yfir tónlistaratriðum.

Ríkisstjórninni gefið rauða spjaldið eftir að hafa mætt á fótboltaleik í staðinn fyrir vinnuna #austurvöllur pic.twitter.com/zohLwW8Qk2
— Sigurgeir Ingi (@SigurgeirIngi) June 17, 2015