Innlent

Hollenska stúlkan áfram í farbanni: Rannsókn málsins á lokastigi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fíkniefnin fundust í farangri mæðgnanna en þær komu hingað til lands í byrjun apríl frá Amsterdam.
Fíkniefnin fundust í farangri mæðgnanna en þær komu hingað til lands í byrjun apríl frá Amsterdam. vísir/anton brink
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að stúlka sem handtekin var ásamt móður sinni á Keflavíkurflugvelli í byrjun apríl verði í farbanni til 26. júní næstkomandi.

Mæðgurnar eru grunaðar um að hafa að hafa smyglað um tuttugu kílóum af fíkniefnum hingað til lands en stúlkan kveðst ekki hafa vitað af fíkniefnunum í farangri sínum.

Fram kemur í dómnum að stúlkan hafi verið yfirheyrð fjórum sinnum vegna málsins og móðir hennar þrisvar sinnum. Þá sé rannsókn málsisn á lokastigi.

Fíkniefnin fundust í farangri mæðgnanna hinn 3. apríl við komu þeirra til landsins frá Amsterdam. Í töskunni fundust tæp níu kíló af amfetamíni, rúm tíu kíló af MDMA og tæp 200 grömm af kókaíni. Málið er eitt stærsta fíkniefnamáls sem komið hefur upp hér á landi í lengri tíma.

Mæðgurnar voru í kjölfarið fluttar í Kópavogsfangelsi en stúlkunni var svo komið í umsjá barnaverndaryfirvalda. Málið þótti sérlega vandasamt þar sem stúlkan er undir lögaldri. Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er mælst til þess að börn sitji ekki í fangelsi með fullorðnum en málið er óvenjulegt þar sem um mæðgur er að ræða og tengsl þeirra náin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×