Erlent

Finnsk móðir dæmd fyrir að bana fimm börnum sínum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fjölbýlishúsið þar sem upp komst um glæpi konunnar.
Fjölbýlishúsið þar sem upp komst um glæpi konunnar.
Þrjátíu og sex ára gömul kona var í dag dæmd í lífstíðarfangelsi í Finnlandi fyrir að bana fimm börnum sínum á árunum 2005 til 2013 og fela þau í frystikistu.

Upp komst um glæpi konunnar í júní árið 2014 þegar nágrannar kvörtuðu undan vondri lykt í fjölbýlishúsinu sem konan var nýflutt í með manni sínum.

Þegar lögreglan komst á snoðir um málið kom fljótlega í ljós að konan hafði falið lík barnanna í ruslapokum í kjallara fjölbýlishússins.

Áður en hún flutti í húsið hafði hún falið líkin í frystikistu en ekki var pláss fyrir kistuna í nýju íbúðinni. Því hafi hún komið þeim fyrir í kjallara hússins.

Konan neitaði sök í málinu og bar fyrir sig að öll börnin hefðu fæðst andvana.

Hún var dæmd á grundvelli sönnunargagna, sem aflað var af réttarmeinafræðingum, og gáfu til kynna að nokkur barnanna hefðu lifað í allt að fjóra daga í frystikistunni.

Konan ku ekki hafa sagt barnsfeðrum sínum frá þungununum og eignaðist börnin án þeirra vitundar.

Við skýrslutökur veitti hún engar skýringar á því af hverju hún vildi heldur fela lík barna sinna í stað þess að veita þeim útför.

Lífstíðardómur í Finnlandi er alla jafna um 12 ár bak við lás og slá ef marka má fréttaveituna AFP.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×