Erlent

Árásarmaðurinn í Dallas skotinn af lögreglu

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjöldi lögreglumanna tóku þátt í aðgerðunum í dag.
Fjöldi lögreglumanna tóku þátt í aðgerðunum í dag. Vísir/Epa
Leyniskytta lögreglunnar í Dallas í Bandaríkjunum skaut til bana árásarmann fyrr í dag. Árásarmaðurinn hafði komið fyrir sprengjum við lögreglustöð í borginni og skaut á lögregluþjóna. Hann flúði af vettvangi en var króaður af á bílastæði við veitingastað þar sem hann var skotinn eftir nokkurra klukkustunda viðræður.

Sprengjuleitarvélmenni lögreglunnar fann poka fullan af rörasprengjum sem sprakk um leið og vélmennið tók pokann upp. Í samtali við lögregluna sagði maðurinn að hann hefði einnig komið fyrir sprengjum í bíl sínum. Því er ekki búið að nálgast bílinn, sem vitni segja að sé brynvarinn.

Upprunalega sögðu vitni einnig að mögulega væru árásarmennirnir fjórir, en nú er lögreglan sannfærð um að maðurinn hafi verið einn að verki samkvæmt AP fréttaveitunni.



Árásarmaðurinn skaut á lögreglustöð í Dallas og inn um dyrnar. Þar hæfði hann móttökuborð sem lögregluþjónn hafði skömmu áður setið við. Þar að auki skaut hann á lögreglubíla og þjóna.

Á blaðamannafundi í dag sagði lögreglustjóri borgarinnar að maðurinn hafi kynnt sig sem James Boulware og sagðist hann kenna lögreglunni um að hafa misst forræði yfir syni sínum og að lögreglan hefði sakað hann um að vera hryðjuverkamann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×