Erlent

Segja Bandaríkin ætla að beita miltisbrandi gegn sér

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Vísir/EPA
Yfirvöld í Norður-Kóreu segja að Bandaríkin ætli að beita miltisbrandi gegn sér. Þeir hafa sent bréf til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og biðja um að efnavopnahernaður Bandaríkjanna verði rannsakaður. Bandaríkin tilkynntu í síðustu viku að sýni af miltisbrandi hafi verið send til herstöðva víða um heim, þar á meðal í Suður-Kóreu, fyrir slysni.

Nánar tiltekið voru sýnin send til 19 ríkja í Bandaríkjunum, Ástralíu, Kanada, Bretland og Suður Kóreu.

„Bandaríkin búa ekki einungis yfir banvænum gereyðingarvopnum, heldur reyna þeir nú að beita þeim í raunverulegum hernaði gegn Norður-Kóreu.“ Þetta skrifaði sendiherra Norður-Kóreu til Sameinuðu þjóðanna í bréfið samkvæmt Reuters fréttaveitunni.

Bandaríkin hafa enn sem komið er ekki tjáð sig um ásakanirnar.

Með bréfinu fylgdi yfirlýsing frá þjóðaröryggisráði Norður-Kóreu. Þar er alþjóðasamfélagið hvatt til að horfa á efnavopnaflutningana sem „alvarlega ógn gegn friði og hrottalegum glæp þar sem þjóðarmorð var takmarkið.“

Viðskiptaþvinganir Sameinuðu þjóðanna eru nú í gildi gegn Norður-Kóreu, vegna kjarnorkuvopna- og eldflaugatilrauna yfirvalda þar. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna setti nýverið stöðu mannréttinda í Norður-Kóreu á dagskrá. Í fyrra komst nefnd að því að mannréttindabrot í landinu væri hægt að bera saman við ódæði á tímum nasista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×