Fótbolti

Emil: Við munum vinna Tékka

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Emil Hallfreðsson klæðir sig fyrir æfingu.
Emil Hallfreðsson klæðir sig fyrir æfingu. vísir/valli
„Eins og svo oft áður er mjög góð stemning hjá okkur. Ég held hún sé jafnvel enn betri en áður miðað við okkar stöðu og hvernig við höfum staðið okkur," segir Emil Hallfreðsson yfirvegaður fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í dag.

Íslenska landsliðið er að undirbúa sig fyrir stórleikinn við Tékka á föstudag. Þar er toppsætið í okkar riðli í boði.

„Þetta á eftir að vera mjög skemmtilegt. Þessi leikur er eiginlega eins og bíkarúrslitaleikur því með sigri komum við okkur í ótrúlega skemmtilega stöðu. Ég held við séum meðvitaðir um það. Þetta er ótrúlega spennandi," segir Emil og brosir. Það er gaman að vera í landsliðinu í dag.

„Við gerum okkur vel grein fyrir okkar stöðu. Það er gleði og spenna yfir þessu og á móti erum við gríðarlega einbeittir á verkefnið. Það er mikil trú í liðinu. Ef maður pælir í fyrri leiknum í Tékklandi þá var það ekki okkar besti leikur en við hefðum samt getað tekið stig úr þeim leik. Það sýnir að þegar við eigum slakan dag þá getum við samt gert eitthvað. Við förum því fullir sjálfstrausts í leikinn."

Emil segir að það sé búið að skoða fyrri leikinn mjög vel og liðið búið að læra af honum.

„Við höfum séð hvað fór úrskeiðis hjá okkur. Þeir fundu líka veikleika á okkar og við höfum farið yfir hvernig við leysum úr ákveðnum aðstæðum núna," segir Emil en hvað með andlegu hliðina fyrir svona stóran leik?

„Við lærðum af Króatíu-leikjunum og Tékka-leiknum. Við erum ekkert með reynslumesta liðið en við erum með menn eins og Eið Smára og svo Gylfa Sig sem spilar í stærstu deild heims. Flestir eru að spila í flottum deildum og við eigum alveg að geta unnið Tékka að mínu mati. Ég held að það sé mat félaga minna líka. Þannig verður það bara. Við munum vinna Tékka," sagði Emil brosmildur og jákvæður.


Tengdar fréttir

Jón Daði: Vil komast í stærra félag

"Það er alltaf jafn gaman að koma í landsliðið og mikil tilhlökkun fyrir leiknum," segir Jón Daði Böðvarsson á Laugardalsvelli í dag en hann hefur átt frábæra leiki fyrir íslenska landsliðið í undankeppni EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×