Erlent

Skutu gúmmíkúlum á Gay Pride-göngu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/epa
Átök brutust út milli lögreglunnar og þátttakenda í Gay Pride-göngunni í Istanbúl í Tyrklandi í dag.

Lögreglan skaut táragasi, gúmmíkúlum og vatni úr háþrýstidælum á mannfjöldann sem hafði safnast saman til göngunnar á İstiklal breiðstrætinu í miðborg Istanbúl.

Skipuleggjendur göngunnar segja að stjórnvöld í Istanbúl hafi „skyndilega bannað” gönguna og sagt Ramadan, helgasta mánuð múslima sem nú stendur yfir, sem ástæðu fyrir banninu.

Talið er að mannfjöldinn hafi talið tugi þúsunda en ekki hafa borist neinar fregnar af alvarlegum meiðslum eða handtökum.

Á myndbandsupptöku sem birtist á Twitter má sjá hvernig lögreglan sprautaði niður mann sem veifaði regnbogafána Gay Pride-göngunnar í námunda við Taksimtorg.

„Við erum hér, venjist því, við erum ekki á förum!” voru skilaboð skipuleggjenda í dag. „Ástin sigrar,” voru lokaorð yfirlýsingar sem þeir sendu frá sér í dag eftir að gangan hafði verið brotin upp. Þetta er í þrettánda sinn sem farin er Gay Pride-ganga í Tyrklandi en um 30 manns mættu í fyrstu gönguna sem farin var árið 2003.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×