Fótbolti

Vill hleypa fjölmiðlamönnum inn í klefann hjá Rúnari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson.
Rúnar Kristinsson. Vísir/EPA
Torgeir Bjarmann, íþróttastjóri hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Lilleström, vill taka upp gamla siði í samskiptum við blaðamenn en Íslendingurinn Rúnar Kristinsson tók við þjálfun Lilleström-liðsins fyrir þetta tímabil.

Norska blaðið Verdens Gang segir frá þessum áformum Bjarmann og Lilleström og Rúnar gæti því átt vona á fréttaþyrstum blaðamönnum inn í klefann sinn á næstunni.

Blaðmönnum og ljósmyndurum var hent út úr búningsklefum norsku félaganna fyrir tíu árum og hafa undanfarin áratug þurft að taka öll sín viðtöl á sérstökum blaðamannasvæðum fyrir utan klefana.

Torgeir Bjarmann var áður fyrirliði Lilleström liðsins en hann þekkir vel til hvernig þetta var áður fyrr í samskiptum leikmanna og blaðamanna.

Rúnar Kristinsson sjálfur var líka leikmaður íslenska landsliðsins þegar íslenskir blaðamenn fengu aðgengi að leikmönnum í búningsklefanum eftir leiki en líkt og í Noregi breyttist það í tímanna rás.  

Bjarmann er á því að þessi breyting á aðgengi fjölmiðlamanna þýði mun ferskari og áhugaverðari viðtöl við leikmenn og að blaðamönnunum sé alveg treystandi fyrir að spyrja leikmenn út úr á þeirra allra heilagasta stað á vellinum.

Lilleström gæti samt verið eina liðið til að taka upp fyrri siði því Verdens Gang segir frá því að Rosenborg ætli ekki að opna klefann fyrir blaðamönnum í leit að viðtölum við leikmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×