Fótbolti

Nýtt útspil frá Blatter: Ég sagði ekki af mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter, forseti FIFA,
Sepp Blatter, forseti FIFA, Vísir/EPA
Sepp Blatter, nýkjörinn forseti FIFA, er kannski ekki að fara að hætta eftir allt saman ef marka má nýjasta viðtalið við hann.

Blatter var endurkjörinn forseti FIFA í miðju fjölmiðlafári í lok maímánaðar en aðeins nokkrum dögum síðar gaf hann það út að hann ætlaði að hætta og boða til nýrra forsetakosninga.

FIFA hafði fengið á sig mikla gagnrýni í kringum þingið og háttsettir menn innan sambandsins höfðu verið handteknir skömmu fyrir FIFA-þingið. Blatter stóð það hinsvegar af sér og var endurkjörinn þrátt fyrir harða mótstöðu frá UEFA-ríkjum.

Nú virðist vera komið aðeins annað hljóð í þennan 79 ára gamla Svisslending sem hefur verið forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins síðan 1998.

„Ég sagði ekki af mér. Ég setti mig sjálfan og mitt starf í hendurnar á FIFA-þinginu," sagði Sepp Blatter í viðtali við svissneska blaðið Blick.

FIFA hefur nú staðfest að rétt hafi verið haft eftir forseta FIFA í umræddu viðtali og það væri ekki í fyrsta sinn sem hann siglir í gegnum öldusjó með segja eitt og gera síðan allt annað þegar á hólminn er komið.

„Við getum staðfest það að rétt er haft eftir Blatter í Blick. Hinsvegar er hann að tala á sömu nótum og hann gerði i í ræðu sinni 2. júní," segir í yfirlýsingu frá FIFA.

Nýjar forsetakosningar áttu að fara fram sem fyrst og fara væntanlega fram í lok þessa ár eða í maí 2016. Það gæti farið svo að Blatter verði þar í framboði eins og 2002, 2007, 2011 og 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×