Innlent

Tvífótbrotnaði á hoppudýnu þremur vikum fyrir brúðkaupið

Birgir Olgeirsson skrifar
Rakel Sara Jónasdóttir slasaðist ill á hoppudýnu á Bíladögum á Akureyri.
Rakel Sara Jónasdóttir slasaðist ill á hoppudýnu á Bíladögum á Akureyri. Vísir/Facebook/Youtube
Rakel Sara Jónasdóttir fótbrotnaði eftir að hafa hoppað úr átta metra hæð og lent á sérstakri hoppudýnu á Bíladögum á Akureyri síðastliðinn sunnudag. Færðar hafa verið fregnir af því að átta manns hafi leitað aðhlynningar á sjúkrahúsi á Akureyri eftir að hafa lent á dýnunni og var Rakel ein þeirra.

„Mig langaði ógeðslega mikið að prufa þetta,“ segir Rakel í samtali við Vísi um málið. Hún ætlaði í fyrstu að hoppa úr þrettán metra hæð en leist ekki á það og fór svo að hún hoppaði úr átta metra hæð.

Áður en hún lét vaða segist hún hafa spurt starfsmann hvort einhver hafi meiðst við að lenda á þessari dýnu og var því neitað. „Þeir sögðu mér að passa mig á því að lenda ekki á löppunum heldur reynda að lenda á rassinum. Ég hoppaði og lendi á hægri löppinni og brýt á mér ökklann og beinið fyrir neðan hnéskelina.“

Hún segist hafa íhugað að leita réttar síns vegna þessa slyss en hún segir starfsfólk sjúkrahússins á Akureyri hafa tekið þá ákvörðun að láta heilbrigðiseftirlitið vita að margir hefðu slasað sig á þessari dýnu til að fyrirbyggja að frekari slys yrðu á fólki.

Rakel segist þó ekki ætla að svekkja sig mikið á þessu slysi. Brúðkaup hennar er fyrirhugað eftir þrjár vikur og verður Rakel enn í gipsi. „Mér verður kannski rúllað inn kirkjugólfið á hjólbörum,“ segir Rakel glettin.

„Þetta verður eitthvað ævintýri. Þetta er ógeðslega leiðinlegt og maður var ekki búinn að plana þetta. En ég verð bara að setja upp bjartsýnisgleraugun og fara bara í Pollýönnuleik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×