Erlent

Bandaríkjastjórn endurskoðar stefnu sína í gíslatökumálum

Atli Ísleifsson skrifar
Núgildandi stefna bannar fjölskyldum gísla að greiða lausnargjald til mannræningja til að tryggja lausn þeirra.
Núgildandi stefna bannar fjölskyldum gísla að greiða lausnargjald til mannræningja til að tryggja lausn þeirra. Vísir/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti hyggst kynna breytingar á stefnu Bandaríkjastjórnar varðandi hvernig tekið er á málum þar sem bandarískir ríkisborgarar hafa verið teknir í gíslingu.

Núgildandi stefna bannar fjölskyldum gísla að greiða lausnargjald til mannræningja til að tryggja lausn þeirra.

Bandarísk stjórnvöld hafa sætt gagnrýni vegna stefnunnar og þykir líklegt að ný stefna komi til með að fela í sér að fjölskyldum gísla verði ekki lengur hótað málsókn.

Í frétt BBC segir að Bandaríkjastjórn hafi haft stefnuna til endurskoðunar síðastliðna sex mánuði.

Stefnubreytingin hefur vakið upp spurningar um hvort „verðmæti“ bandarískra gísla muni aukast og hvort þetta auki líkur á að Bandaríkjamenn sem búa og starfa erlendis verði líklegri skotmörk mannræningja.

Heimildarmenn AP segja stefnubreytinguna fela í sér að opinberir starfsmenn geti nú haft milligöngu um samningaviðræður milli fjölskyldna gísla og gíslatökumanna. Bandaríkjastjórn verður þó áfram óheimilt að greiða gíslatökumönnum lausnarfé til að tryggja lausn gísla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×