Fótbolti

Aron í bandaríska hópnum sem á að verja Gullbikarinn

T'omas Þór Þórðarson skrifar
Aron Jóhannsson hefur fengið traustið hjá Klinsmann undanfarið.
Aron Jóhannsson hefur fengið traustið hjá Klinsmann undanfarið. vísir/getty
Aron Jóhannsson, Íslendingurinn í bandaríska landsliðinu í fótbolta, er í 23 manna hópnum sem Jürgen Klinsmann valdi fyrir Gullbikarinn þar sem liðin frá Norður- og Mið-Ameríku berjast.

Keppnin fer að þessu sinni fram í Bandaríkjunum og Kanada og stendur frá 7.-26. júlí.

Aron hefur byrjað undanfarna leiki hjá bandaríska liðinu í fjarveru Jozy Altidore og Clint Dempsey, stórstjarna bandaríska liðsins, en þeir eru báðir í hópnum að þessu sinni.

Aron er þó eini framherjinn sem heldur sæti sínu af þeim sem Klinsmann hefur verið að prófa undanfarna mánuði. Annars treystir Þjóðverjinn á reynsluboltanna Altidore, Dempsey og Chris Wondolowski. Þeir voru allir með Aroni á HM síðasta sumar.

Bandaríska liðið spilar síðasta æfingaleikinn fyrir Gullbikarinn 3. júlí gegn Gvatemala, en fyrsti leikur Bandaríkjanna í keppninni verður gegn Hondúras 7. júlí.

Bandaríkin eru í riðli með Panama, Haítí og Hondúras, en bandaríska liðið vann mótið þegar það var síðast haldið fyrir tveimur árum.

Þar sem það vann síðasta mót er liðið að minnsta kosti búið að tryggja sér umspilsleiki gegn meisturunum í ár um sæti í Álfukeppninni í Rússlandi árið 2017.

Sigurvegarinn 2013 mætir nefnilega sigurvegaranum 2015 í þeim leikjum, en vinni Bandaríkin aftur fara þau sjálfkrafa í Álfukeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×