Erlent

Bjargaði hundrað hundum frá því að vera étnir

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Yang Xiayon
Yang Xiayon vísir/epa
Kínversk kona á sjötugsaldri bjargaði í gær lífi hundrað hunda með því að kaupa þá fyrir upphæð sem jafngildir 150.000 íslenskum krónum. Ef hún hefði ekki komið til sögunnar hefði hundunum verið slátrað og þeir runnið ofan í maga gesta á árlegri hundakjötshátíð í borginni Yuilin.

Konan, sem heitir Yang Xiaoyn og er fyrrverandi kennari, ferðaðist rúmlega 2.400 kílómetra frá heimili sínu í Tianjin til að koma hundunum til bjargar. 

Hefði Yang Xiaoyn ekki komið til sögunnar hefðu hundarnir endað hangandi á krók.vísir/epa
Frá árinu 1995 hefur hún helgað lífi sínu því að bjarga dýrum en þá veiddi hún drukknandi kettling upp úr á. Hún hefur meðal annars selt húsið sitt til að byggja skýli fyrir dýrin en sem stendur á hún um 1.500 hunda og tvöhundruð ketti. 

Árlega er um tíuþúsund hundum slátrað á hátíðinni í Yulin. Heimildum ber ekki saman um hvort allir hundarnir séu ómerktir eða hvort sumir þeirra eigi húsbónda. 

Hundakjötsát á sér langa sögu í Kína en hátíðinni sjálfri var ekki komið á fót fyrr en árið 2009 en henni er valinn þessi dagur til að halda upp á sumarsólstöður. Fjöldi fólks hefur barist fyrir því að hún verði lögð af en þeirra á meðal má nefna leikarana Ricky Gervais og Ian Somerhalder og söngkonuna Leonu Lewis. 

Hér að neðan má sjá myndband sem gert var um dýrin sem Xiayon hefur bjargað og hugsar nú um sem þau væru börnin sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×