Erlent

Strandaglópar á flugvelli vegna tölvuárásar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fjölda fluga var aflýst.
Fjölda fluga var aflýst. vísir/nordic photos
Fjórtánhundruð manns urðu strandaglópar á Chopin flugvellinum í Varsjá, höfuðborg Póllands, eftir að tölvuþrjótar réðust á tölvur flugfélagsins sem nýttar eru til að skipuleggja tímasetningar á flugum.

Ráðist var á tölvukerfið seinni partinn í dag og tók viðgerð um fimm klukkustundir. Vegna þessa þurfti að aflýsa tíu flugum og tólf önnur töfðust. Hluti farþeganna komst í flug í kvöld en aðrir munu gista á hóteli í höfuðborginni í nótt.

Í yfirlýsingu frá flugfélaginu segir að aldrei hafi öryggi farþeganna verið stefnt í voða. Árásin hafði engin áhrif á flug sem áttu að lenda á vellinum og truflaði ekki flug á öðrum völlum í landinu.

Árásin er nú til rannsóknar hjá yfirvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×