Fótbolti

Blatter skrópar á úrslitaleik HM kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter.
Sepp Blatter. Vísir/Getty
Sepp Blatter, forseti FIFA, ætlar að skrópa á úrslitaleik HM kvenna á sunnudaginn og ástæðurnar eru persónulegar samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu.

Hinn 79 ára gamli Svisslendingur ætlaði fyrst að mæta á úrslitaleikinn sem fer fram í Vancouver þrátt fyrir að framkvæmdastjórinn Jerome Valcke hafi þegar hætt við komu sína. Blatter ætlar ekki lengur að standa við loforðið og það er því einn af varaformönnum sambandsins, Issa Hayatou, sem mun afhenda bikarinn.

Það hefur gengið mikið á í kringum FIFA síðustu vikurnar og Blatter var endurkjörinn í skugga gríðarlegra spillingarmála, eftir að sjö háttsættir embættismenn FIFA voru handteknir rétt fyrir ársþingið.

Þetta verður fyrsti heimsmeistaramótið þar sem Sepp Blatter missir af úrslitaleiknum síðan að hann tók við árið 1998 en hann er nú á sínu fimmta kjörtímabili sem forseti FIFA.

Bandarískir aðilar standa þessi misserin fyrir umfangsmikilli rannsókn á spillingarmálum í kringum FIFA og er Blatter einn af þeim sem er undir smásjánni.

Sepp Blatter og Jerome Valcke munu báðir halda sig í höfuðstöðvum FIFA í Zurich í Sviss og samkvæmt tilkynningu frá FIFA eru þeir báðir uppteknir við störf sín þar.

Það bendir þó flest til þess að þeir félagar hætti ekki á að fljúga yfir Atlantshafið á meðan umrædd rannsókn er í gangi en rannsóknaraðilar hafa þegar fengið liðsinni uppljóstrara sem voru háttsettir innan sambandsins og  gefa upp svarta mynd af starfsemi FIFA á bak við tjöldin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×