Erlent

Komust yfir kennitölur, sjúkraskrár og sakaskrár milljóna Bandaríkjamanna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tölvuhakkararnir brutust inn í kerfi opinberrar stjórnsýslu bandarísku ríkisstjórnarinnar.
Tölvuhakkararnir brutust inn í kerfi opinberrar stjórnsýslu bandarísku ríkisstjórnarinnar. vísir/getty
Tölvuhakkarar stálu kennitölum, sjúkraskrám og öðrum afar viðkvæmum persónuupplýsingum um meira en 21 milljón Bandaríkjamanna, að því er bandarísk stjórnvöld greindu frá í dag. Hakkararnir komust inn í tölvukerfi bandarísku ríkisstjórnarinnar og er gagnalekinn talinn sá mesti í sögu Bandaríkjanna.

Um er að ræða tvær tölvuárásir, eina sem gerð var á þessu ári og aðra sem gerð var í fyrra. Í báðum tilfellum var brotist inn í kerfi opinberrar stjórnsýslu ríkisstjórnarinnar (U.S. Office of Personnel Management) en í kerfinu er að finna upplýsingar um opinbera starfsmenn. Var upplýsingum stolið um rúmlega fjórar milljónir einstaklinga.

Komust yfir gögn um maka og meðleigjendur

Í síðari árásinni náðu hakkararnir í upplýsingar sem starfsmenn láta í té vegna svokallaðs „bakgrunnstékks“ svo þeir megi fá aðgang að leynilegum gögnum.

Hakkararnir komust þá yfir upplýsingar um meira en 19 milljónir starfsmanna, auk upplýsinga um maka þeirra, meðleigjendur og fleiri. Á meðal þess sem hakkararnir komust yfir voru sakaskrár, sjúkraskrár og ferilskrár.

Vilja ekki segja hverjir eru á bak við árásirnar

Ríkisstjórn Barack Obama, Bandaríkjaforseta, hefur ekki viljað gefa upp hverjir standa á bak við árásirnar en hafa þó sagt að sömu aðilarnir séu ábyrgir fyrir þeim báðum. Ýmsir vilja meina að kínversk yfirvöld beri ábyrgðina en í dag vildu fulltrúar ríkisstjórnarinnar ekkert segja um það.

Rannsakendur höfðu áður greint AP-fréttastofunni frá því að bandarísk yfirvöld grunuðu kínversku ríkisstjórnina frekar um árásirnar heldur en tölvuþrjóta, en Kínverjar hafa þvertekið fyrir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×