Lífið

Vann með Reykjavíkurdætrum: „Ógeðsleg“ mesta áskorunin frá upphafi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Þrettán Reykjavíkurdætur auk Kylfunnar eiga texta í laginu.
Þrettán Reykjavíkurdætur auk Kylfunnar eiga texta í laginu. Vísir
Antonía Lárusdóttir, ljósmyndari, sem sá um upptöku, klippingu og vinnslu tónlistarmyndbandsins Ógeðsleg með Reykjavíkurdætrum og Kylfunni segir verkefnið hafa verið sína stærstu áskorun hingað til. Þetta kemur fram í færslu á vefsíðu hennar.

„Mér finnst eins og ég sé loksins tilbúin til að deila reynslu minni af erfiðasta verkefni sem ég hef tekist á við hingað til. Tónlistarmyndband sem ég fékk þann heiður að búa til fyrir Reykjavíkurdætur, hljómsveit sem ég hef starfað með í nokkrum verkefnum á síðasta ári eða þar um bil.“

Antonía segir að eftir að hafa kynnst nokkrum Reykjavíkurdætra náið hafi hún orðið gáfaðri og séð lífið með opnari huga.

„Þær hafa allar svo sterka sjálfsvitund og mér finnst það sjást í myndbandinu. Það er raunverulega ástæðan á bakvið það að þetta sjö mínútna myndband er ekki leiðinlegt heldur áhugavert ferðalag frá upphafi til enda.

„Þetta er barnið mitt“

Hún segir verkefnið hafa reynt á þolrifin. „Tveir dagar af upptökum, einn ellefu klukkustunda tökudagur og sá seinni um sjö klukkustundir og svo beint í að klippa.“ Hún þurfti að vinna nótt og dag við að klippa.

Antonía segist í færslunni hafa varið tveimur nóttum uppi í rúmi með nóg af koffíni við vinnu. Hún segir þó að leikstjóri myndbandsins, Sólveig Pálsdóttir, og tvær rappettur hafi verið henni til halds og trausts. Heimildir Vísis herma að þar hafi verið á ferð þær Þuríður Blær Jóhannsdóttir eða MC Blær og Salka Valsdóttir eða Bleach pistol.

„Ég hefði ekki getað gert þetta án þeirra stuðnings. Eftir vægt taugaáfall kláraði ég að klippa myndbandið bara hálftíma áður en ég þurfti að mæta til vinnu og eftir vinnu fór ég beint í frumsýningarpartýið. Ég hef aldrei lagt jafnmikið á mig fyrir neitt á ævinni. Þetta er barnið mitt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×