Erlent

Fyrirsæta krefst milljóna í skaðabætur vegna skíðaslyss á Íslandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þýska fyrirsætan Angelika Allmann
Þýska fyrirsætan Angelika Allmann mynd/facbook-síða Allmann
Þýska fyrirsætan Angelika Allmann hefur höfðað skaðabótamál á hendur útgefandanum Burda vegna skíðaslyss sem hún lenti í hér á landi í apríl í fyrra. Allmann fer fram á 75.000 evrur í skaðabætur frá Burda, eða sem samsvarar rúmum 11 milljónum króna. Málið er höfðað fyrir dómstóli í Hamborg í Þýskalandi.

Slysið átti sér stað í Ólafsfjarðarmúla en fyrirsætan var í myndatöku fyrir tímaritið Fit for Fun. Allmann, sem er reynd skíðakona, rann til í brekkunni og slasaðist mikið. Hún braut nokkur bein, reif vöðva og sleit taug. Hún þurfti að fara í 10 aðgerðir og dvaldi í hálft ár á spítala í kjölfar slyssins, að því er fram kemur í frétt Telegraph um málið.

Fyrirsætan þurfti að fara í 10 aðgerðir vegna slyssins.mynd/facebook-síða allmann
Allmann segist enn finna mikið til í líkamanum og þá er ekki víst að taugin sem slitnaði í hægra hné hennar muni einhvern tímann gróa að fullu. Hún segir útgefandann að hluta til ábyrgan fyrir slysinu en talsmaður Burda segir fyrirtækið hafa boðið henni 30.000 evrur í bætur og hlutastarf á ritstjórn tímaritsins Fit for Fun sem fyrirsætan hafnaði.

Í yfirlýsingu sinni saka Allmann og lögfræðingur hennar útgefandann um að hafa staðið illa að skipulagningu myndatökunnar. Samkvæmt þeim fór myndatakan fram án fjallaleiðsögumanns sem var kunnugur staðháttum auk þess sem teymið hafi fært sig frá öruggum stað, sem leiðsögumaður hafði mælt með, á annað svæði í um 300 metra fjarlægð.


Tengdar fréttir

Skíðakona á gjörgæslu eftir fall í Ólafsfjarðarmúla

Erlend skíðakona, sem slasaðist alvarlega þegar hún féll í Ólafsfjarðarmúla síðdegis í gær, liggur nú á gjörgæsludeild Landsspítalans í Reykjavík eftir aðgerð sem stóð fram eftir kvöldi í gær.

Skíðakonan komin úr öndunarvél

Konan er alvarlega slösuð en hlaut hún nokkur beinbrot og þar á meðal slæman áverka á hægri fæti. Var hún að skíða niður Múlann við erfiðar aðstæður þegar hún féll. Hún var þá stödd ofan við gamla Ólafsfjarðarveg, um 300 metra frá gagnamunnanum Ólafsfjarðarmegin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×