Erlent

Festi 100 helíumblöðrur við garðstól og tókst á loft

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mynd/Twitter
Kanadískur maður gæti átt yfir höfði sér fangelsisvist eftir að hafa fest ríflega 100 helíumblöðrur við garðstól og flogið yfir borgina Calgary í Kanada.

Hinn 26 ára gamli Daníel Bora var handtekinn á sunnudag eftir að hafa „stokkið úr stólnum og opnað fallhlíf sem hann hafði á bakinu,“ ef marka má yfirlýsingu frá þarlendum löggæsluyfirvöldum.

Að sögn kanadískra miðla réðst ofurhuginn í svaðilförina til að kynna nýtt hreinsiefni sem fyrirtæki hans var að setja á markað en talið er að hann hafi eitt ríflega 12 þúsund dölum,  um 1.2 milljónum króna, í kaup á helíumblöðrunum.

Í samtali við the Toronto Star segist Bora hafa ætlað að stökkva úr stólnum yfir veðreiðabraut bæjarins en tugþúsundir fylgdust þar með kappreiðum um helgina.

„Ég flaug upp í tiltekna hæð þar sem vindhraðinn var rosalegur. Ég hringsnérist í stólnum og frostið var rosalegt,“ sagði Bora. „Ég sá hvernig veðreiðabrautin og draumar mínir flugu í burtu.“ Bora meiddist við lendingu og lögreglan leitar nú að stólnum sem enn er ófundinn. Lögreglan býst við því að stóllinn komi í leitirnar þegar síðustu blöðrurnar springa. „Við höfum ekki fengið neinar tilkynningar um að nokkur hafi fundið stólinn eða slasast af hans völdum,“ sagði lögreglustjórinn Kyle Grant í samtali við CTV.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×