Innlent

Ráðgáta af hverju moskítóflugur eru ekki á Íslandi

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Íbúar í Mosfellssveit, í Reykjavík og Kópavogi hafa orðið varir við lúsmýið og sumir þeirra illa útleiknir eftir bit.

Svo virðist sem mýið sé einnig að dreifa sér lengra út á land en mögulega hefur þess orðið vart við Ísafjarðardjúp, en ferðalangur þaðan leitaði á slysadeild vegna bita í gær og sagði í samtali við fréttamann sterkan grun leika á að lúsmý hafi bitið hann. 

Lúsmý er af ætt örsmárra mýflugna sem sjúga blóð úr dýrum og mönnum. Erling Ólafsson skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að hann teldi hugsanlegt að mýið sé komið hingað til lands vegna hlýinda og að dýralífið sé að breytast. „Það er ýmislegt að gera í fánunni hjá okkur, það er spurning hvað menn fólk kallar vágest, það er töluvert af skaðvöldum sem hafa sest að í görðum hjá okkur það kannast til dæmis allir við spánarsnigil, asparglettu og birkikempu.“

Fleiri vágestir af smærri sortinni hafa sest hér að en Íslendingar sem þola illa flugnabit geta enn huggað sig við að moskítóflugan hefur ekki gerst landnemi hér og er það mikil ráðgáta.

„Frá því ég kom hingað fyrst og jafnvel áður en ég kom hingað til starfa þá fékk ég þessa spurningu: Af hverju er ekki moskító á Íslandi? Það er ekki svar við því. Aldrei verið og er ekki enn. Mér finnst þetta óskiljanlegt. Það eru moskítóflugur allt í kringum okkur. Nema í Færeyjum, þannig að við Íslendingar og Færeyingar erum hultir.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×