Máli Tchenguiz gegn Kaupþingi vísað frá en Jóhannes þarf að grípa til varna

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kaupþingi og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni. Málavextir eru þeir að í nóvember 2014 höfðuðu Vincent Tchenguiz og tengdir aðilar dómsmál í Englandi gegn Kaupþingi hf, Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni hæstaréttarlögmanni sem á sæti í slitastjórn Kaupþings, Grant Thornton UK LLP og tveimur eigendum þess þar í landi. Kröfur Tchenguiz eru sagðar tilkomnar vegna meintrar aðkomu slitastjórnar Kaupþings að rannsókn breskra lögregluyfirvalda á Vincent Tchenguiz og bróður hans sem leiddu til húsleitar og handtöku hans í mars 2011. Vincent Tchenguiz gerði skaðabótakröfu sem hljóðar upp á 2,2 milljarða sterlingspunda, sem nemur ríflega 455 milljörðum íslenskra króna.
Sjá einnig: Tchenguiz vill 400 milljarða frá Kaupþingi, Jóhannesi og fleirum
Kaupþing og Jóhannes Rúnar kröfðust í janúar frávísunar á þeim grundvelli að enskir dómstólar hefðu ekki lögsögu til að fjalla um málið.
Stefnu Tchenguiz á hendur Grant Thornton var vísað frá í febrúar á þessu ári meðal annars vegna þess að dómurinn taldi málatilbúnað Tchenguiz of óskýran.
Telur málshöfðunina tilraun til óeðlilegs ávinning af slitum bankans
Þrátt fyrir að undirréttur hafi vísað frá máli Tchenguiz á hendur Kaupþingi í dag gildir ekki það sama um málið á hendur Jóhannesi Rúnari og mun efnismeðferð í málinu hvað hann varðar því fara fram ytra. Úrskurður dómsins felur ekki í sér nokkurn dóm á efnishlið málsins.
„Ég er mjög ánægður með niðurstöðu enskra dómstóla varðandi Kaupþing. Að mínu mati eru þessar kröfur lítt dulin tilraun Vincent Tchenguiz til að tryggja sjálfum sér og tengdum skuldurum óeðlilegan ávinning við slit Kaupþings. Skuld þessara aðila við Kaupþing nemur meira en 143 milljónum sterlingspunda, sem jafngildir um 30 milljörðum íslenskra króna,“ sagði Jóhannes Rúnar í tilkynningu sem hann sendi til fjölmiðla. „Skuldin er tryggð með persónulegri ábyrgð Vincent Tchenguiz að fjárhæð 10 milljónir sterlingspunda, sem jafngildir meira en 2 milljörðum króna.
Sjá einnig: Skaðabótamál Tchenguiz tekið fyrir á Englandi
Eins og ég hef þegar gefið skýrslu um til réttarins í Englandi, þá er það fjarstæðukennt að ég hafi tekið þátt í meintu samsæri eða öðrum ólögmætum athöfnum líkt og borið er í stefnu málsins. Ég endurtek að þær ásakanir sem gerðar eru á hendur mér eiga sér enga stoð í raunveruleikanum og eru með öllu ósannar. Rannsóknir erlendra lögregluyfirvalda og handtaka Vincent Tchenguiz eru ákvarðanir sem teknar voru af þeim og á þeirra ábyrgð og hvorki ég né Kaupþing leituðumst nokkru sinni við að koma slíkum aðgerðum í kring.
Ég mun verjast öllum kröfum áður nefndra aðila af festu enda kröfur þeirra tilhæfulausar með öllu og allar sakargiftir rangar. Ef Vincent Tchenguiz og tengdir aðilar kjósa að halda kröfum á hendur mér til streitu er ég þess fullviss að enskir dómstólar muni sýkna mig af öllum kröfum sem hafðar eru uppi á hendur mér.”
Tengdar fréttir

Tchenguiz vill 400 milljarða frá Kaupþingi, Jóhannesi og fleirum
Bresk-íranski fasteignamógúllinn Vincent Tchenguiz hefur höfðað 2,2 milljarða punda skaðabótamál á hendur Grant Thornton, slitastjórn Kaupþings og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni.

Tchenguiz íhugar að stefna Kaupþingi
Kaupsýslumaðurinn Vincent Tchenguiz, sem breska efnahagsbrotadeildin, SFO, var með til rannsóknar vegna viðskipta hans við íslenska bankann Kaupþing, hefur fengið leyfi dómara til að láta óháð teymi lögfræðinga fara yfir öll skjöl sem tengdust málinu til að athuga hvort grundvöllur sé fyrir því að hann fari í mál vegna misbresta á rannsókninni.

Efnhagsbrotadeildin greiðir Tschenguiz tæpar 300 milljónir króna
Máli Tschenguiz-bræðra er nú formlega lokið í kjölfar samkomulags við SFO um skaðabótagreiðslu og fallið hefur verið frá réttarhöldum sem áttu að hefjast í október.

Kannast ekki við kröfu Tchenguiz
Slitastjórn Kaupþings segir hvorki bankann né Jóhannes Rúnar Jóhannsson hafa fengið gögn eða upplýsingar um kröfu Vincent Tchenguiz.