Viðskipti innlent

Skaðabótamál Tchenguiz gegn Jóhannesi tekið fyrir á Englandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vincent Tchenguiz og Jóhannes Jóhannsson.
Vincent Tchenguiz og Jóhannes Jóhannsson. vísir/daníel
Skaðabótamál breska kaupsýslumannsins Vincent Tchenguiz á hendur Jóhannesi Jóhannssyni, stjórnarmanni í slitastjórn Kaupþings, verður tekið fyrir í Englandi. Þetta er niðurstaða enskra dómstóla.

Jóhannes hafði farið fram á að málið yrði tekið fyrir á Íslandi en því var hafnað á grundvelli þess að stefna Tchenguiz gegn Jóhannesi byggir á atburðum sem eiga að hafa gerst á Englandi. Auk Jóhannesar hefur Tchenguiz stefnt endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton, tveimur eigendum fyrirtækisins, þeim Stephen Akers og Hossein Hamedani, sem og slitastjórn Kaupþings.

Dómstóllinn féllst hins vegar ekki á kröfu Tchenguiz varðandi það að málið gegn slitastjórninni yrði tekið fyrir á Íslandi. Vísar dómurinn í íslensku gjaldþrotalögin sem heimila ekki að höfðað sé mál gegn íslenskum gjaldþrota banka annars staðar en á hér á landi. Fram kemur í tilkynningu frá Tchenguiz, sem Vísir hefur undir höndum, að hann hyggist áfrýja þessum úrskurði til Evrópudómstólsins.

Um niðurstöðuna í máli sínu gegn Jóhannesi segir Tchenguiz:

„Dómurinn hefur fallist á að stefna mín varðar atburði í Englandi og skal málið því vera leitt til lykta fyrir enskum dómstólum. Jóhannes Jóhannsson, sem situr í slitastjórn Kaupþings, þarf nú að útskýra fyrir enskum dómstólum hvert hlutverk hans var í því sem kom fyrir fyrir fyrirtæki mín og mig [...]“

Lögsókn Tchenguiz snýr að slitastjórn Kaupþings, Grant Thornton og tengdum einstaklingum vegna rannsóknar bresku efnahagsbrotadeildarinnar, SFO, á viðskiptum Tchenguiz við Kaupþing áður en bankinn féll.

Tchenguiz krefst ríflega 2,2 milljarða punda, um 450 milljarða íslenskra króna. Upphæðin nemur um helmingi af eignum þrotabús Kaupþings. Rannsókn SFO var hætt og Tchenguiz fékk greiddar bætur frá SFO vegna málsins.


Tengdar fréttir

Krefst helmings af eignum Kaupþings

Krafa Vincents Tchenguiz á hendur Kaupþingi, Grant Thornton og fleiri aðilum nemur um 54 prósentum af heildareignum Kaupþings. Upphæðin er um fimmtán prósent af samþykktum kröfum slitabúsins. Málið verður höfðað í Bretlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×