Eldhúsdagsumræður fara fram á Alþingi í kvöld klukkan 19:40 en Jæja-hópurinn svokallaði hefur boðað til mótmæla á Austurvelli á sama tíma. Hópurinn hefur staðið fyrir um 10 viðburðum í vetur en fyrstu mótmælin voru þann 3. nóvember síðastliðinn.
Sara Oskarsson, einn af forsvarsmönnum Jæja-hópsins, segir að þrátt fyrir fjölmenn mótmæli í vetur hafi ef til vill ekki tekist að ná eyrum núverandi ríkisstjórnar.
„Þeir virðast vera ansi duglegir að loka eyrunum fyrir kröfunum sem hafa komið fram á mótmælunum og svona í orðræðunni undanfarið. Það sem hefur gerst og er kannski mikilvægara en hitt það er það að almenningur er að vakna gagnvart því að vera ekki ginnkeypt fyrir því sem vellur upp úr sumum ráðherrum ríkisstjórnarinnar,“ segir Sara í samtali við Vísi.
Sara segir að fólk sé orðið langeygt eftir breytingum og úreltri hugmyndafræði sem hafi einkennt stjórnmálin í mörg ár.
„Það yrði ekkert endilega betra þó að síðasta ríkisstjórn kæmist til valda núna eða sú sem var þar áður, það er mergurinn málsins. Það þarf að koma eitthvað nýtt sem hefur ekki verið áður og breyta kerfinu.“
Tæplega 400 manns hafa boðað komu sína á Austurvöll í kvöld sem er mjög lítið miðað við þann fjölda sem mætt hefur á mótmæli síðustu mánuði. Sara bendir á að um 3000 manns hafi mætt á mótmæli á 17. júní og sennilega sé komin mótmælaþreyta í fólk.
„Svo eru margir í sumarfríi, það er gott veður og þá kannski dofnar landinn aðeins. En við höldum samt áfram og það er það mikilvægasta. Ég hef alltaf litið svo á að þetta sé langtímaverkefni svo það er mikilvægt að halda áfram þó að það komi svona mótmælaþreyta,“ segir Sara og bætir við að Jæja-hópurinn stefni á að starfa áfram í sumar og næsta vetur.
