Innlent

Var sjúkraliði en lærði hjúkrun og uppskar launalækkun

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Ungar konur undirbúa stofnun starfsmannaleigu fyrir hjúkrunarfræðinga til að bregðast við yfirlýsingum stjórnenda Landsspítalans um að leitað verði eftir erlendum starfskröftum vegna uppsagna hjúkrunarfræðing. Ein þeirra, Sóley Ósk Geirsdóttir hjúkrunarfræðingur, var áður sjúkraliði en segist hafa minna á milli handanna nú en þá. Afborganir af námslánum éti upp launahækkunina.

Þær segja að starfsmannaleigan eigi ekki að vera rekin í hagnaðarskyni. Hún sé viðbragð við yfirlýsingum heilbrigðisráðherra um að reynt verði að fá hjúkrunarfræðinga til starfa frá útlöndum. Rósa Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur sem er í undirbúningshópi starfsmannaleigunnar segir að slíkt hafi verið reynt áður með slæmum árangri. Það skapi mikið álag og kalli á mistök.

„Hverjir ætla að koma? Ekki hjúkrunarfræðingar frá Norðurlöndum. Kannski einhverjir frá Asíu. Þeir þurfa þá að læra íslensku. Þeir labba ekki bara inn á Landsspítalann fyrsta október og ætla að fara að hjúkra fólki,“ segir Rósa.

Heildarlaun hjúkrunarfræðinga eru að meðaltali í kringum 580 þúsund krónur á mánuði í dag eða 440 þúsund fyrir dagvinnu. Flestar þeirra telja eðlilegt að bera úr býtum sex til sjöhundruð þúsund á mánuði fyrir dagvinnu. Þær leggja þó áherslu á að launakröfur hafi ekki verið ræddar í undirbúningshópnum.

Tugir hjúkrunarfræðinga hafa skráð sig til leiks á lokaða Facebook síðu og enn fleiri íhuga að bætast í hópinn. Rósa Einarsdóttir segir að þótt það verði einungis 200 hjúkrunarfræðingar sem fari af stað, muni fleiri bætast í hópinn, þegar fram í sæki. Aðrar muni ekki sætta sig við lakari kjör og þessi hugmynd geti breytt vinnumarkaði hjúkrunarfræðinga til frambúðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×