Innlent

Samtök verslunar og þjónustu kvarta til umboðsmanns vegna tollkvóta

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Tryggvi Gunnarsson er umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson er umboðsmaður Alþingis. vísir/gva
Samtök verslunar og þjónustu hafa sent kvörtun til umboðsmanns Alþingis þar sem kvartað er undan starfsháttum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis vegna framkvæmdar við úthlutun á tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SVÞ.

Að mati SVÞ hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti brotið gegn grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins og mikilvægt er að fá álit umboðsmanns á þeim starfsháttum ráðuneytisins.

Í maí síðastliðnum óskaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti eftir umsóknum um umrædda tollkvóta. Boðaði af ráðuneytið að útboðsgjöld yrðu lögð á í þeim tilvikum þar sem sótt er um meira magn en það sem í boði er. SVÞ telja að sú framkvæmd gangi gegn stjórnarskrá.

Í kvörtun sinni benda SVÞ á að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hafi vísvitandi dregið afgreiðslu fyrirliggjandi umsókna, umsóknir þar sem öll gögn hafa legið fyrir til að afgreiða þær, á meðan beðið var eftir lagabreytingu sem heimilaði skattlagningu ráðherra í formi útboðsgjalds en sú breyting var gerð í skjóli nætur rétt fyrir frestun þingfunda nú í júlí.

Að mati SVÞ gengur framkvæmd þessi gegn þeirri meginreglu stjórnsýsluréttarins að taka skuli ákvarðanir í málum svo fljótt og unnt er og á grundvelli þeirra lagaheimilda sem gilda á hverjum tíma. SVÞ telja að það er almennt ekki á valdi stjórnvalda að ákveða að bíða með afgreiðslu mála þar til settar hefðu verið nýjar reglur, heldur verða stjórnvöld að beita þeim réttarheimildum sem í gildi eru á hverjum tíma við úrlausn mála. Í ljósi þessa hafa SVÞ sent kvörtun til umboðsmanns Alþingis þar sem er óskað að umboðsmaður tali mál þetta til skoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×