Lífið

Ert þú Mary Poppins eða Ernest Hemingway þegar þú færð þér í tána?

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mary Poppins, Ernest Hemingway, Nutty Professor og Mr. Hyde.
Mary Poppins, Ernest Hemingway, Nutty Professor og Mr. Hyde.
Eftir langt kvöld úti á galeiðunni felst flest fólk á að það umbreytist eftir of marga áfenga drykki.

Nú slá sálfræðingar frá University of Missouri-Columbia því föstu að drykkjuhrútar geti breyst í fjórar mismunandi persónur þegar þeir detta í það; ýmist Ernest Hemingway, Mary Poppins, Nutty Professor eða Mr. Hyde.

Ef lundargeð einhvers breytist lítið við mikla drykkju er sá hinn sami svokallaður Ernest Hemingway en týpan dregur nafn sitt af rithöfundinum fræga sem alræmdur var fyrir að skrifa öll sín helstu verk undir áhrifum. „Skrifaðu drukkinn, lagfærðu edrú,“ er meðal annars haft eftir honum. Hemingway-ar eru þeir sem glata fæstum persónueinkennum sínum þegar þeir eru í glasi; hvort sem það er skipulagshæfni, áreiðanleiki eða sköpunargáfa.

Þeir sem eru Mary Poppins eru ástríkir og vinalegir í glasi, rétt eins og barnfóstran ástæla. „Mary Poppins-hópurinn kristallar ljúfu og ábyrgu drykkjumenna sem lenda sjaldan í veseni þegar áfengi er við hönd,“ segja sálfræðingarnir. Ólíklegt verður þó að teljast að drykkjumaðurinn þurfi að geta sagt „Supercalifragilisticexpialidocious.“

Ef einhver fellur undir skilgreininguna á Nutty Professor þá er hann alla jafna mjög feiminn þegar hann er ekki undir áhrifum – en sprengir svo gjörsamlega af sér allar hömlur þegar hann svo mikið sem finnur lyktina af áfengi. Prófessorarnir verða miklar félagsverur í glasi og mannblendnar með eindæmum.

Þeir sem umturnast hins vegar til hins verra undir áhrifum eru svokallaðir Mr. Hyde, nefndir í höfuðið á skuggahlið skáldsagnapersónunnar Dr. Jekyll. Sálfræðingar leiddu í ljós að meðlimir þessa hóps væru líklegri til að hugsa órökrétt, verða óskynsamri og árásargjarnari en meðlimir hinna hópanna þegar þeir fá sér í aðra tánna.  

Sálfræðinganir frá University of Missouri-Columbia framkvæmdu rannsókn sína á 364 einstaklingum af báðum kynjum. Rannsóknin var framkvæmd með spurningalistum sem einstaklingarnir svöruðu í fyllsta trúnaði og gengið var úr skugga um að svörin væru órekjanleg.

Sálfræðingarnir hafa nú í hyggju að nýta svörin til að hanna meðferðarúrræði fyrir fólk sem hefur orðið fíkninni að bráð.

„Sumir einstaklingar „breytast“ meira en aðrir undir áhrifum en eðli og umfang breytinganna geta haft skaðlegar afleiðingar,“ segja þeir.

„Þessar niðurstöður, sem og hugmyndin um „drukkna persónuleika“ geta nýst okkur til að hann nýstárlegar matsaðferðir og hvatningardrifin meðferðarúrræði fyrir áfengissjúklinga.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×