Lífið

Minnihluti mannkyns í rómantísku kossaflensi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vísindamenn skoðuðu 168 mismunandi samfélög manna og komust að því að í aðeins 46% þeirra kysstist fólk í því sem kalla má rómantískum tilgangi.
Vísindamenn skoðuðu 168 mismunandi samfélög manna og komust að því að í aðeins 46% þeirra kysstist fólk í því sem kalla má rómantískum tilgangi. vísir/getty
Flestum Íslendingum þykir það væntanlega eðlilegasti hlutur í heimi að kyssa maka sinn rómantískum kossi beint á munninn og detta jafnvel í sleik. Það þykir þó ekki öllum jarðarbúum jafneðlilegt að kyssast, eins og niðurstöður nýrrar rannsóknar gefa til kynna.

Vísindamenn skoðuðu 168 mismunandi samfélög manna og komust að því að í aðeins 46% þeirra kysstist fólk í því sem kalla má rómantískum tilgangi. Áður var talið að allt að 90% mannkyns skiptust á rómantískum kossum.

Mörg samfélög veiðimanna og safnara sýndu engin merki um kossaflens eða þrá eftir slíku. Sumum fannst það jafnvel ógeðslegt. Mehinaku-ættbálkurinn í Brasilíu lýsti kossum á munninn til dæmis sem „ógeðslegum.“

William Jankowiak í Nevada-háskólanum í Las Vegas segir að niðurstöður rannsóknarinnar kollvarpi þeirri trú að rómantískir kossar séu alþjóðlegt fyrirbæri. Þvert á móti virðast þeir vestrænt fyrirbæri sem kynslóðir læra hver af annarri.

Rómantískir kossar eru því tiltölulega nýir af nálinni í hinu stóra samhengi sögunnar, segir Rafael Wlodarski í Oxford-háskóla. Minnst er á kossa í fyrsta sinn í skrifuðum texta á sanskrít fyrir 3.500 árum. Þar er þeim lýst sem tilraun til þess að anda að sér sál annarrar manneskju.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×