Erlent

Kínversk yfirvöld torvelda útgáfu vegabréfa fyrir Tíbetbúa

Atli Ísleifsson skrifar
Mikil fjölgun hefur orðið á undanförnum árum meðal Kínverja sem ferðast til útlanda.
Mikil fjölgun hefur orðið á undanförnum árum meðal Kínverja sem ferðast til útlanda. Vísir/AFP
Kínversk yfirvöld koma í raun í veg fyrir að Tíbetbúar og önnur þjóðarbrot í landinu fái útgefið vegabréf. Þetta segir talskona mannréttindasamtakanna Human Rights Watch.

Samtökin segja kínversk yfirvöld hafa nú komið á tveggja þrepa kerfi þegar kemur að útgáfu vegabréfa. Annað þrepið gildir fyrir íbúa þeirra svæða þar sem Han-þjóðarbrotið, sem meirihluti Kínverja tilheyra, eru í meirihluta og hitt fyrir þau svæði þar sem Tíbetbúar, múslímar og aðrir minnihlutahópar eru fjölmennir.

Í flestum hlutum landsins þarf að gefa út vegabréf innan fimmtán daga frá því að umsókn berst. Í Tíbet, Xinjiang og öðrum héruðum þar sem íbúar minnihlutahópa eru í meirihluta, er hins vegar notast við eldra kerfi sem felur í sér aukna umsýslu og oft þarf samþykki fulltrúa Kommúnistaflokksins fyrir útgáfunni.

„Ef þú tilheyrir trúarlegum minnihlutahópi og býrð í þeim hluta landsins þar sem ólíkir minnihlutahópar eru í meirihluta, þá er í raun ómögulegt fyrir þig að fá vegabréf,“ segir Sophie Richardson, talskona Human Rights Watch.

Í frétt France24 segir að mikil fjölgun hafi orðið á undanförnum árum meðal Kínverja sem ferðast til útlanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×