Erlent

Goðsagnakenndur eitulyfjabarón sleppur á ný

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sá stutti í fylgd hermanna þegar hann var handtekinn í fyrra.
Sá stutti í fylgd hermanna þegar hann var handtekinn í fyrra. Vísir/cnn
Eiturlyfjabaróninn Joaquin Guzman, sem alla jafn er kallaður El Chapo eða „Sá stutti,“ slapp úr fangelsi í Mexíkó í morgun.

Mexíkósk löggæsluyfirvöld hafa blásið til mikillar leitar en Guzman er alræmdur langt út fyrir landsteinana sem leiðtogi einhverra alræmdustu glæpasamtakana þar í landi.

Sá stutti stýrði Sinaloa-glæpasamtökunum áður en hann var handtekinn árið 2014 en samtökin smygla gífurlegu magni eiturlyfja milli Mexíkó og Bandaríkjanna. Samtökin eru til að mynda sögð ábyrg fyrir hinum mikla heróínfaraldri sem nú geisar á norðausturströnd Bandaríkjanna, er fram kemur á vef CNN um málið.

Veldi Sinaloa-samtakanna og Guzmans er metið á rúmlega 130 milljarða króna og talið er að átök gengisins hafi dregið meira en hundrað þúsund manns til dauða á síðastliðnum áratug.

Víðfrægt yrkisefni heima fyrir

Talið er að mexíkóska lögreglan einblíni nú á nærliggjandi flugvelli í leit sinni að Guzman sem er ekki óvanur því að stinga af undan löggunni. Guzman hafði verið á flótta undan yfirvöldum í meira um 13 ár áður en hann var klófestur í fyrra.

Þá hafði hann strokið úr hámarksöryggisfangelsi, rétt eins og hann gerði í morgun, og faldi sig þá í óhreinum þvotti sem var verið að flytja til hreinsunar utan fangelsisins.

Síðast sást til hans í gærkvöldi í sturtuklefa í hámarksöryggisfangelsinu, þar sem honum var haldið. Þegar fangaverðir litu inn í klefa hans í gærkvöld var hann á bak og burt.

Sá stutti ber nafn með rentu, en hann er talinn rétt rúmlega 160 sentímetrar á hæð. Hann er svo frægur í Mexíkó að um hann hafa verið skrifaðar metsölubækur og þá hefur hann verið yrkisefni í fjölmörgum dægurlagatextum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×