Innlent

Nýjar öryggisleitarlínur meðal þess sem veldur löngum röðum á Keflavíkurflugvelli

Bjarki Ármannsson skrifar
Örtröð síðasta sunnudag.
Örtröð síðasta sunnudag. Vísir/Turisti.is
Uppsetning á nýjum öryggileitarlínum á Keflavíkurflugvelli hefur tekið lengri tíma en áætlanir gerðu ráð fyrir og er það ein ástæða þess að langar raðir hafa skapast við öryggisleit á álagstímum undanfarna daga.

Þetta segir í tilkynningu frá Isavia. Nýju öryggisleitarlínurnar eru sagðar betri en þær sem fyrir voru og er unnið hörðum höndum að því að koma þeim í notkun sem fyrst. Ástæðan fyrir seinkununum er sögð tafir af hálfu framleiðanda.

Fyrr í vikunni var greint frá mikilli örtröð við öryggisleitina á álagstíma en á sunnudag þurfti að seinka öllum sautján morgunflugferðum Icelandair. Í tilkynningunni segir að mikill fjöldi ferðamanna og innleiðing á breyttu verklagi, sem hafi haft í för með sér aukna þjálfun starfsfólks, séu líka meðal þeirra samverkandi þátta sem orðið hafa til þess að langar raðir hafa myndast.

Farþegar sem eiga bókað flug eru áfram hvattir til að mæta tímanlega. Eru farþegar sem eiga að fljúga frá landinu milli sex og átta eða níu og ellefu á morgnanna, frá þrjú til fimm seinni partinn eða um miðnætti hvattir til að koma út á völl að minnsta kosti þremur tímum fyrir brottför.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×