Innlent

Forseta Íslands verði afhentar undirskriftirnar í lok mánaðar

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Þorkell gerir ráð fyrir einhverjum hnökrum, en stefnir á að afhenda forseta Íslands undirskriftirnar í lok mánaðar.
Þorkell gerir ráð fyrir einhverjum hnökrum, en stefnir á að afhenda forseta Íslands undirskriftirnar í lok mánaðar. vísir/vilhelm
Undirskriftasöfnun Þjóðareignar lauk nú á miðnætti, en söfnunin er sú fjórða stærsta í Íslandssögunni. Vinna við að yfirfara listann mun hefjast eftir helgi og gert er ráð fyrir að forseta Íslands verði afhentar undirskriftirnar í lok mánaðar.

Alls rituðu 51.296 Íslendingar nafn sitt á listann þar sem skorað er á forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til meira en eins árs, á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá.

Þorkell Helgason stærðfræðingur og einn aðstandenda söfnunarinnar, segir niðurstöðurnar hafa komið sér á óvart. „Við höfðum engar sérstakar væntingar, við sem stóðum að þessu. Við höfum ekki mikla reynslu í þessum efnum en mér persónulega kom þetta á óvart. Að þjóðin væru reiðubúin að skrifa undir þetta mál alveg sérstaklega, en það sýnir bara enn og aftur hvað þessi kvótamál eru öllum hugleikin,“ segir hann.

Þorkell segir listann verða yfirfarinn nú eftir helgi, en telur að vænta megi smávægilegra hnökra.

„Við undirskriftirnar sjálfar er innbyggðis varúð. Enginn getur skráð sig oftar en einu sinni og svo framvegis en tölvufyrirtækið sem sér um það mun gera þær rástafanir og eftirlit sem mögulegt er með tölvutækum hætti. Þannig að það er alveg við því að búast að þetta gryjist eitthvað en ég held það verði lítið og varla mælanlegt. En þetta eru örugglega fimmtíu þúsund undirskriftir eða meira sem hægt verður að afhenda forseta Íslands.“

Aðstandendur söfnunarinnar hafa þegar haft samband við forsetaskrifstofuna og eiga von á svari frá forsetanum á næstu dögum. „Það verður auðvitað eftir tímatöflu forsetans hvernig það gengur. Ég held það sé ekki fyrr en í næstu viku eða þarnæstu, en það verður fyrr en síðar.“

Söfnuninni var hrundið af stað hinn 1.maí síðastliðinn í kjölfar makrílfrumvarps sjávarútvegsráðherra, þar sem lagt var til að makrílkvóta yrði úthlutað til útgerðarinnar til næstu sex ára. Ekki tókst þó að afgreiða frumvarpið á yfirstandandi þingi.


Tengdar fréttir

Undirskriftasöfnun Þjóðareignar sú fjórða stærsta

Undirskriftasöfnunin Þjóðareign er orðin sú fjórða stærsta í sögunni nú degi áður en henni lýkur. Rúmlega fimmtíu þúsund Íslendingar skora á forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til meira en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×