Erlent

Indland verður orðið fjölmennasta ríki heims þegar árið 2022

Atli Ísleifsson skrifar
1.380 milljónir manna búi nú í Kína, en 1.310 milljónir í Indlandi.
1.380 milljónir manna búi nú í Kína, en 1.310 milljónir í Indlandi. Vísir/Getty
Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna áætla að Indland verði orðið fjölmennasta ríki heims þegar árið 2022. Spá Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2013 gerði ráð fyrir að Indland tæki fram úr Kína árið 2028.

Sameinuðu þjóðirnar birtu nýja skýrslu fyrr í dag þar sem spáð er fyrir um mannfjöldaþróun í heiminum næstu áratugina.

Í skýrslunni segir að 1.380 milljónir manna búi nú í Kína, en 1.310 milljónir í Indlandi. Eftir sjö ár er hins vegar búist við að mannfjöldinn verði kominn upp í 1.400 milljónir manna í báðum ríkjunum.

Næstu áratugina er svo búist við að mannfjöldinn í Indlandi muni aukast enn frekar - ná 1.500 milljónum árið 2030 og 1.700 milljónir 2050. Á móti er talið að mannfjöldinn í Kína haldast nokkuð stöðugur á næstunni og svo muni fólki fækka á fjórða áratug þessarar aldar.

Um 7,3 milljarðar manna lifa nú á jörðinni og er búist við að sá fjöldi verði kominn í 9,7 milljarða árið 2050. Búist er við að hlutfallslega verði mesta fjölgunin í Afríku og fjölmennustu ríkjum heims.

Helmingur aukningarinnar fram til ársins 2050 er talinn munu verða í níu ríkjum – Indlandi, Nígeríu, Pakistan, Lýðveldinu Kongó, Eþíópíu, Tansaníu, Bandaríkjunum, Indónesíu og Úganda.

Í frétt New York Times segir að búist sé við að fólki muni fækka í 48 af ríkjum heims – fyrst og fremst ríkjum í Evrópu. Þannig reikna sérfræðingarnir með að fólki í fjölda ríkja muni fækka um meira en 1,5 prósent fram til ársins 2050 – þar á meðal Bosníu, Búlgaríu, Króatíu, Ungverjalandi, Japan, Lettlandi, Litháen, Moldóvu, Rúmeníu, Serbíu og Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×