Erlent

San Francisco-borg snýst til varnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
List í almannarými hefur alltaf verið í hávegum höfð í San Francisco.
List í almannarými hefur alltaf verið í hávegum höfð í San Francisco. Vísir/Getty
Framkvæmdadeild San Francisco-borgar í Bandaríkjunum hefur hafið prófanir á nýrri málningu á ákveðnum svæðum í kringum bari og veitingastaði þar sem finna má hátt hlutfall heimilislausra og annarra gesta. Málningin er sérstaklega hönnuð til þess að endurkasta frá sér vökva og er ætluð til þess að koma í veg fyrir að menn kasti af sér þvagi á húsveggi og önnur óæskileg svæði.

Í stað þess að renna meðfram veggnum og niður á jörðina kastast þvag eða annar vökvi til baka og ættu gerendur því að hugsa sig um tvisvar áður en að kallið kemur skyndilega séu þeir staddir í San Francisco, vilji þeir ekki eiga það á hættu að sitja upp með hlandblautar buxur.

Málningin nefnist Ultra-Ever Dry og samkvæmt framleiðenda hennar virkar hún þannig að það myndast örlítil loftfyrirstaða sem á að kasta frá sér nánast hvaða vökva sem er. Málningin var þróuð í Þýskalandi eftir að yfirvöld í St.Pauli leituðu lausna til að stemma stigu við þennan fylgifisk hinna fjölmörgu ferðamanna sem heimsækja St.Pauli á hverju ári.

Að sögn forsvarsmanna framkvæmdadeildar San Francisco-borgar er málningin hagkvæmari lausn en að senda út starfsmenn til að hreinsa þau svæði sem verða fyrir barðinu á tíðum þvaglátum.

Jafnframt stendur til að fjölga almenningsklósettum í San Francisco.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×