Erlent

Bandaríkin og Eþíópía ætla að auka samstarf sitt

Heimir Már Pétursson skrifar
Eþíópíumennn og Bandaríkjamenn ætla að efla samstarf sitt í baráttunni gegn hryðjuverkum og friði í nágrannaríkinu Sómalíu. Þá heita leiðtogar landanna að vinna að eflingu lýðræðis í Afríku.

Barack Obama forseti Bandaríkjanna átti fund með forsætisráðherra Eþíópíu í dag. En Eþíópía er ungt lýðræðisríki þar sem fyrstu fjölflokka kosningarnar fóru fram árið 1994 og á landamæri að Kenya, Eritreu og Sómalíu þar sem róstursamt hefur verið undanfarin ár.

Hailemariam Desalegn, forsætisráðherra Eþíópíu, segir ríkin staðráðin í að vinna saman gegn hryðjuverkum á svæðinu og varanlegum friði í nágrannaríkinu Suður-Súdan.

Desalegn segir hann og forsetann hafa rætt samvinnu á ýmsum sviðum.

„Við eru sammála um að vinna náið saman að málefnum Suður-Súdan til að vinna að varanlegum frið í því stríðhrjáða landi. Við erum einnig sammála um stuðla að friði í Sómalíu með því að aðstoða við uppbyggingu sterkra stofnana og með því að styrkja öryggissveitir í baráttu þeirra fyrir að ná stjórn á sínu eigin landi,“ sagði Desalegn að loknum fundi með Obama.

Þá ætla ríkin að efla samvinnu sína í baráttuni gegn hryðjuverkum og vexti öfgahópa. Obama hefur verið tíðrætt um lýðræðismál, réttindi kvenna og samkynhneigðra í heimsókn sinni til ríkja Afríku undanfarna daga.

„Stjórn mín hefur ítrekað vilja sinn til að skuldbinda sig til að dýpka það lýðræðislega ferli sem nú þegar er í gangi í landi okkar og vinna að því að virðing sé borin fyrir mannréttindum og bættum stjórnarháttum,“ sagði Desalegn.

Obama undirstrikaði mikilvægi samvinnu í baráttunni gegn vexti öfgahópa. „Ég tel að þegar raddir allra fá að heyrast finnist fólki það vera hluti af hinu pólitíska ferli sem gerir hvert ríki sterkara, árangursríkara og eykur frumkvæði. Þannig að við ræddum skref sem Eþíópía gæti tekið til að bæta stjórnarhætti, til að verja mannréttindi, grundvallarfrelsi og til að styrkja lýðræðið. Við höfum í hyggju að dýpka samtal okkar um þessi mál því við höfum mikla trú framtíð Eþíópíu og þegnum landsins,“ sagði Barack Obama á sameiginlegum blaðamannafundi með forsætisráðherra Eþíópíu í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×