Körfubolti

Jón Arnór: Reyni að fá einhver leynitrix hjá Óla

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bræðurnir Jón Arnór Stefánsson og Ólafur Stefánsson hafa náð ansi langt.
Bræðurnir Jón Arnór Stefánsson og Ólafur Stefánsson hafa náð ansi langt. vísir/daníel/vilhelm
Íslenska landsliðið í körfubolta hóf æfingar fyrir Evrópumótið á mánudaginn, en riðill Íslands hefst í Berlín 5. september þar sem strákarnir okkar mæta heimamönnum frá Þýskalandi í fyrsta leik.

Jón Arnór Stefánsson er þrautreyndur landsliðsmaður en hann hefur aldrei tekið þátt á EM þar sem þetta er í fyrsta sinn sem Ísland kemst á stórmót.

Sjá einnig:Jón Arnór: Yrði afrek að vinna einn leik á EM

„Það er langt síðan ég hef fengið þessa tilfinningu, að vera á svona móti. Ég man bara eftir þessu með yngri landsliðunum. Þetta var það skemmtilegasta sem maður gerði,“ sagði Jón Arnór við Vísi á æfingunni. Hann var þó ekki með að þessu sinni þar sem hann fær aðeins lengra frí.

Landsliðið verður nú meira og minna saman næstu sex vikurnar fram að móti og svo tekur við sjálft Evrópumótið, en þetta er staða sem íslenska liðið hefur aldrei verið í.

Bróðir Jóns Arnórs, Ólafur Stefánsson, þekkir það vel að vera á stórmótum, en hann fór með íslenska landsliðinu á fjölda stórmóta á löngum og farsælum ferli.

„Ég mun örugglega rabba eitthvað við hann. Hann var nú hjá mér í barnaafmæli um daginn og við ræddum þar saman,“ sagði Jón Arnór léttur, aðspurður hvort hann ætli sér að sækja einhverja visku í brunn bróður síns.

„Það eina í boði er að hafa samband við hann og spyrja hann út í þetta. Það er ótrúlega líkamlegt og andlegt álag að spila fimm leiki gegn svona sterkum þjóðum á svona stuttum tíma.“

„Maður þarf að hafa öll vopn á hendi til að komast í gegnum þetta. Maður spyr hann því kannski um einhver leynitrix,“ sagði Jón Arnór Stefánsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×